Markvörður Íslandsmeistara FH, Daníel Freyr Andrésson, hefur skrifað undir nýjan samning við handknattleiksdeild FH sem gildir til sumarsins 2027. Daníel Freyr gekk á ný til liðs við FH sumarið 2023 eftir að hafa staðið vaktina í marki félagsliða í Danmörku og Svíþjóð í um áratug auk eins tímabils hjá Val.
Íslandsmeistaratitill sem Daníel Freyr vann með FH síðasta vor var hans annar meistaratitilinn með félaginu. Daníel Freyr var einnig í Íslandsmeistaraliði FH árið 2011.
„Við erum gríðarlega ánægð að Danni muni standa vaktina í marki okkar FH-inga næstu tvö tímabil enda einn allra besti markvörður landsins,“ segir í tilkynningu frá handknattleiksdeild FH.
Bikarleikur í Eyjum á morgun
FH er í efsta sæti Olísdeildar karla þegar sjö umferðir eru eftir óleiknar. Næsti leikur FH í Olísdeildinni verður á mánudaginn gegn Val á Hlíðarenda. Áður en að þeirri viðureign kemur sækir FH liðsmenn ÍBV heim í 8-liða úrslitum Powerade-bikarkeppninnar á morgun. Leikurinn hefst klukkan 13.30.
Afturelding, Fram og Stjarnan eru þegar komin í undanúrslit Powerade-bikarsins.