Daníel Ísak Gústafsson tekur við nýju hlutverki deildarstjóra handknattleiksdeildar frá og með 1. júlí næstkomandi. Daníel Ísak kom inn í starf Stjörnunnar á síðasta ári þegar hann var aðstoðarþjálfari karlaliðs félagsins.
„Við bindum miklar vonir við að ráðningin verði lyftistöng fyrir handknattleiksdeildina og hlökkum til þess að fylgjast með Daníel í nýju hlutverki hjá okkur. Helstu verkefni Daníels snúa að utanumhaldi og verkefnastjórnun hjá yngri flokkum félagsins ásamt því að halda utan um mót og öllu því sem fylgir. Ásamt þessu mun Daníel einnig þjálfa tvo flokka hjá félaginu. Við fögnum komu Daníels og óskum honum velfarnaðar í nýju hlutverki,“ segir í tilkynningu handknattleiksdeildar Stjörnunnar.