Daníel Þór Ingason og Elmar Erlingsson fögnuðu báðir sigrum með liðum sínum, Balingen-Weilstetten og Nordhorn-Lingen, í 2. deild þýska handknattleiksins í gær. Balingen situr í fjórða sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Hüttenberg sem er í öðru sæti en tvö lið fara upp í 1. deild í vor. Nordhorn er í sjöunda sæti og hafði sætaskipti við Eintracht Hagen sem Hákon Daði Styrmisson leikur með og féll niður um eitt sæti eftir að hafa færst lítillega upp með sigri á föstudag eins og handbolti.is sagði frá í gær.
Daníel Þór skoraði eitt mark og var einu sinni vikið af leikvelli í sigurleik Balingen-Weilstetten í gær, 29:28, á Bayer Dormagen. Mikil spenna var í leiknum á lokamínútunum. Dormagen var lengi vel með frumkvæðið en Balingen-menn komust yfir, 26:25, þegar fjórar mínútur voru eftir á heimavelli og unnu nauman og góðan sigur.

Elmar öflugur
Þriðja leikinn í röð átti Elmar framúrskarandi leik fyrir Nordhorn þegar liðsmenn Coburg komu í heimsókn, harðákveðnir í að fara heim með bæði stigin í farteskinu. Þeim varð ekki kápan úr því klæðinu. Nordhorn-liðið skoraði þrjú síðustu mörkin vel studdir af fjölda áhorfenda og vann, 35:32. Elmar kom Nordhorn yfir, 33:32 og átti stoðsendinguna í síðasta markinu.
Alls skoraði Elmar sex mörk og gaf tvær stoðsendingar.
Nordhorn á þrjá leiki eftir en Balingen tvo.
Keppnin í 2. deild hefur verið einstaklega jöfn allt tímabilið og eins og sést á stöðunni hér fyrir neðan auglýsinguna munar aðeins átta stigum á liðinu í sjötta sæti og því sem situr í 17. og næst neðsta sæti. Tvö lið falla úr deildinni eftir 34 umferðir og tvö lið færast upp í 1. deild.
Staðan í 2. deild karla í Þýskalandi: