- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Danir heimsmeistarar í fjórða sinn í röð

Danmörk, heimsmeistari karla í handknattleik í fjórða sinn. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -


Danmörk vann í kvöld heimsmeistaratitilinn í handknattleik karla í fjórða sinn í röð með sex marka sigri á Króötum, 32:26, í úrslitaleik í Unity Arena í Bærum í Noregi. Afrek Dana er einstakt því aldrei hefur landsliði tekist að vinna heimsmeistaratitilinn í fjögur skipti í röð. Reyndar hefur aldrei landslið unnið titilinn í þrjú skipti í röð.

Nikolaj Jacobsen hefur verið þjálfari danska landsliðsins í öll skiptin sem Danir hafa staðið á efsta palli á heimsmeistaramóti. Það sem meira er Danir hafa ekki tapað leik á HM síðan á HM 2017. Frá 2019 hefur danska landsliðið leikið 37 leiki í lokakeppni HM, unnið 35 og gert tvö jafntefli. Auk þess urðu Danir Ólympíumeistarar í sumar.

Þrátt fyrir mikla sigurgöngu Jacobsen með danska landsliðið á átta árum þá hefur hann aldrei náð að vinna Evrópumót sem margir telja erfiðara mót en HM.


Danir voru yfir allan leikinn. Í hálfleik var fjögurra marka munur, 16:12. Danska liðið gerði út um leikinn á fyrstu 10 mínútum síðari hálfleiks með því að ná 10 marka forskoti, 24:14. Króatar lögðu aldrei árar í bát þótt staðan væri slæm. Þeim tókst að minnka muninn í fimm mörk þegar fimm mínútur voru eftir. Nær komust þeir ekki, m.a. vegna rangs vítadóms sem varð til þess að þeir misstu tvo leikmenn af leikvelli, annan fyrir mótmæli. Þar með var ljóst að króatískt kraftaverk myndi ekki eiga sér ekki stað á lokakaflanum.

Fyrstur Íslendinga

Dagur Sigurðsson var fyrsti Íslendingurinn til að stýra landsliði í úrslitaleik HM í karlaflokki og fyrstur til að vinna verðlaun á HM karla. Hann hefur þar með unnið gullverðlaun á EM sem þjálfari, silfur á HM og brons á Ólympíuleikum. Króatar unnu sjö leiki en töpuðu tveimur á HM. Þeir töpuðu einfaldlega fyrir einu allra besta handboltaliði sögunnar að þessu sinni.

Dagur Sigurðsson við hlíðarlínuna í úrslitaleiknum. Ljósmynd/EPA

Gidsel og Nielsen

Fyrir utan snilli Danans Mathias Gidsel sem skoraði 10 mörk í 11 skotum og varð markahæstur á mótinu með 74 mörk þá munaði miklu á markvörslunni í leiknum í dag. Meðan hún var afar góð hjá Dönum þá náðu króatísku markverðirnir sér ekki á strik.


Mörk Króatíu: Ivan Martinović 6, Mario Šoštarić 5, Luka Lovre Klarica 4, Marin Jelinić 3, Filip Glavaš 2, Marin Šipić 2, Igor Karačić 2, Tin Lučin 1, Domagoj Duvnjak 1.
Varin skot: Dominik Kuzmanović 4, 17% – Ivan Pešić 2, 17%.

Mörk Danmerkur: Mathias Gidsel 10, Emil M. Jakobsen 5, Emil W. Madsen 4, Simon Pytlick 4, Johan Á Plógv Hansen 3, Lukas Lindhard Jørgensen 2,Niclas Vest Kirkeløkke 2, Rasmus Lauge Schmidt 1, Magnus Landin 1.
Varin skot: Emil Nielsen 13, 38% – Jannick Green 1/1, 20%.

Tölfræði HBStatz.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -