Emil Bergholt, línumaður danska landsliðsins, fór meiddur af velli í stórsigri Danmerkur á Noregi í lokaumferð milliriðils 1 á Evrópumótinu í Jyske Bank Boxen í Herning í gærkvöldi. Nikolaj Jacobsen þjálfari Danmerkur hefur áhyggjur af meiðslunum.
Bergholt meiddist á fæti og sagði Jacobsen við fréttamenn eftir leik að útlitið væri ekki sérlega gott þó ekki lægi fyrir hversu alvarleg meiðslin væru. Óvissa ríkir því um frekari þátttöku línumannsins á mótinu.
Fagnaði sigri og nýfæddum syni
Á yfirstandandi Evrópumóti hefur Bergholt verið í stóru hlutverki hjá heimsmeisturum Dana, bæði í vörn og sókn, og því væri um töluvert áfall að ræða fyrir liðið fari svo að hann heltist úr lestinni.
Samkvæmt dönskum miðlum gengst Bergholt undir frekari rannsóknir í dag og þá skýrist betur hvort hann geti tekið þátt í leik Danmerkur gegn Íslandi í undanúrslitum EM annað kvöld eður ei.
Bergholt vakti athygli um síðustu helgi þegar hann lék með Danmörku gegn Spáni og eignaðist svo son fáeinum klukkustundum eftir leik.



