Frakkar sýndu styrk sinn síðustu 20 mínúturnar gegn Þjóðverjum í síðustu viðureigninni í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins í handknattleik karla. Eftir hörkuleik í 40 mínútur fengu leikmenn Þýskalands lítt við ráðið á endasprettinum. Ekki síst reyndist Remi Desbonnet markvörður Frakka þýska liðinu afar erfiður. Hann varði allt hvað af tók í síðari hálfleik og bætti upp við dapran leik Vincent Gerard í fyrri hálfleik.
Frakkland leikur við Svíþjóð í undanúrslitum á föstudaginn í Stokkhólmi. Í hinni viðureign undanúrslita eigast við Danir og Spánverjar í Gdansk í Póllandi.
Þjóðverjar léku afar vel í fyrri hálfleik í kvöld og voru með ágæt tök á leiknum lengi vel vel. M.a. voru lærisveinar Alfreðs Gíslasonar með fjögurra marka forskot eftir um 20 mínútur, 11:7. Eftir leikhlé svöruðu Frakkar með fimm mörkum í röð og komust þar með inn á sporið. Staðan var jöfn í hálfleik, 16:16.
Eins og fyrr er getið þá fór Remi Desbonnet hamförum í franska markinu auk þess sem meiri breidd er í franska liðinu. Hún var dýrmæt þegar á leikinn leið.
Þýskaland mætir Egyptalandi í krossspili um fimmta til áttunda sæti mótsins á föstudag. Í hinni viðureign krossspilsins leiða Norðmenn og Ungverjar saman kappa sína.
Mörk Frakklands: Nedim Remili 5, Ludovic Fabregas 5, Melvyn Richardson 4, Kentin Mahe 4, Nicolas Tournat 4, Mathieu Grebille 2, Dika Mem 3, Valentin Porte 2, Luka Karabatic 2, Yanis Lenne 1, Dylan Nahi 1, Romain Lagarde 1, Nikola Karabatic 1.
Mörk Þýskalands: Johannes Golla 6, Juri Knorr 5, Lukas Mertens 4, Christoph Steinert 3, Kai Häfner 3, Jannik Kohlbacher 2, Luca Witzke 2, Patrick Groetzki 2, Philipp Weber 1.
HM 2023 – Dagskrá, 8-liða, undanúrslit og úrslit