Þýska handknattleiksliðið BSV Sachsen Zwickau, sem landsliðskonan Díana Dögg Magnúsdótttir leikur með, hefur síðustu daga dvalið í æfingabúðum á bernskuslóðum Díönu Daggar í Vestmannaeyjum. Félagið greinir frá því á Facebook-síðu sinni og birtir margar myndir ásamt frásögninni. Fjölskyldu hennar er þakkað sérstaklega fyrir aðstoðina við að koma æfingabúðunum í kring.
Leikmenn liðsins æfa tvisvar á dag og njóta þess á milli þar sem Vestmannaeyjar hafa upp á að bjóða auk þess sem hugað er að því að byggja upp sterka liðsheild. Liðið kemur til höfuðborgarinnar síðar í vikunni og leikur æfingaleik við Val, eftir því sem næst verður komist.
BSV Sachsen Zwickau verður í 1. deildinni á næsta keppnistímabili í fyrsta sinn í um aldarfjórðung eftir að hafa unnið 2. deild örugglega í vor.
Díana Dögg gekk til liðs við BSV Sachsen Zwickau fyrir ári og lék stórt hlutverk í liðinu á síðasta keppnistímabili.
Rétt rúmur mánuður er í fyrsta leik BSV Sachsen Zwickau en flautað verður til leiks í 1. deildinni í Þýskalandi 4. september.