„Það voru miklar tilfinningasveiflur síðasta sólarhringinn,“ sagði kampakátur Ýmir Örn Gíslason í samtali við handbolta.is eftir sigur Íslands á Slóveníu, sem tryggði sæti í undanúrslitum Evrópumótsins í Herning í Danmörku.
Ísland vann 39:31 í lokaumferð milliriðils 2 í Malmö Arena í dag eftir vonbrigða jafntefli við Sviss degi áður.
Ísland í undanúrslit með stórkostlegum sigri á Slóveníu
Erfitt að fást við það
„Það er ógeðslega erfitt að fást við það. Menn voru langt niðri eftir leikinn í gær. Sem betur fer gekk það upp sem við þurftum á að halda. Þá breytist staðan á manni einhvern veginn á sekúndunni og við mætum svona vel til leiks.
Við spilum fínustu vörn með Viktor flottan á bak við okkur, virkilega góðan. Við erum þéttir, við erum svolítið að ná að stoppa það sem þeir vilja sækjast í. Jú, jú, auðvitað skora þeir úr einhverju, við getum ekki stoppað allt en við hlupum á þá í 60 mínútur.
Við ætluðum okkur þetta meira en þeir og það var held ég spurning um það í dag, hverjir vilja það meira að fara áfram og ég held að við höfum bara sýnt það,“ sagði Ýmir Örn einnig.
Fáránlegt og ótrúlega skemmtilegt
Allir leikmenn liðsins nema einn, Björgvin Páll Gústavsson, munu nú taka þátt í undanúrslitum á stórmóti í fyrsta sinn með Íslandi.
„Það eru margir leikmenn hérna sem eru komnir með 6-10 stórmót sem hafa alltaf verið að berjast um þetta. Að vinna og komast upp úr milliriðlinum. Það er eiginlega bara ótrúlegt, ég veit ekki hvernig ég á að lýsa því.
Ég er svo glaður og feginn. Líka að fá að gera þetta hérna í Malmö með þetta mörgum stuðningsmönnum. Þetta er fáránlegt og ótrúlega skemmtilegt með okkar stuðningsmönnum.
Það voru djöfuls læti í þeim frá fyrstu mínútu. Þau lesa leikinn og hjálpa okkur þegar við þurfum á því að halda. Þetta var gjörsamlega frábært,“ sagði Ýmir Örn Gíslason í samtali við handbolta.is.


