Valur hefur ákveðið að draga kvennalið sitt til baka úr þátttöku í Evrópukeppni félagsliðs vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Þetta staðfestir Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Vals, við handbolta.is. Til stóð að Valur mætti spænska liðinu Málaga 10. og 17. okótber í annarri umferð Evrópubikarkeppninnar.
„Því miður neyðumst við til að skrá okkur úr keppni og leikum því ekki gegn Málaga. Meðan óvissan er þetta mikil í heiminum vegna covid verðum við að láta skynsemina ráða og taka ábyrga afstöðu með velferð allra að leiðarljósi,“ sagði Ágúst Þór við handbolta.is.
Fyrr í haust var karlalið Vals dregið úr keppni í Evrópudeildinni.
Karlalið Aftureldingar á að leika um og eftir miðjan nóvember í annarri umferð Evrópubikarkeppninnar við Granitas-Karys frá Litháen.
Einnig er kvennalið KA/Þórs og karlalið FH skráð til leiks í Evrópubikarkeppninni, áður Áskorendakeppni Evrópu. Bæði lið koma inn í 3. umferð sem verður leikin í desember.