- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

„Draumur að spila í Meistaradeildinni og keppa um alla titla“

- Auglýsing -

Elvar Örn Jónsson, landsliðsmaður í handknattleik, unir hag sínum vel hjá Evrópumeisturum SC Magdeburg. Þangað kom hann frá MT Melsungen, sem leikur einnig í þýsku 1. deildinni, síðastliðið sumar.

„Ég kann vel við mig hjá Magdeburg. Við höfum verið að vinna alla leiki, erum efstir í Þýskalandi og okkur gengur vel í Meistaradeildinni. Það var svona draumur að fá að spila í Meistaradeildinni og keppa um alla titla.

Við eigum góða möguleika á öllum titlum núna á þessu ári þannig að ég er gríðarlega sáttur við hvernig liðið er búið að spila,“ sagði Elvar Örn í samtali við handbolta.is fyrir æfingu íslenska landsliðsins í Safamýri í morgun.

Fagmannlegra umhverfi

Töluverður munur er á umhverfinu hjá Magdeburg samanborið við Melsungen enda mikil sigurhefð hjá fyrrnefnda félaginu.

„Já, ég myndi segja að þetta sé aðeins fagmannlegra umhverfi. Það er meira hugsað um litlu hlutina þarna. Það er mikið hugsað um hvernig við náum árangri. Þeir eru vanir að vinna, það er búist við því að þeir vinni.

Maður vissi þetta áður en maður skrifaði undir og þetta er eitthvað sem maður vill. Maður vill vera í umhverfi þar sem maður á kannski að vinna alla leiki. Það er gaman að upplifa það,“ sagði hann.

Endaði oftast í meiðslum

Hjá Magdeburg, sem Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson leika einnig með, er Elvar Örn ekki í jafn stóru hlutverki og hann var í hjá Melsungen. Hjá Melsungen lék Elvar Örn hartnær allar mínútur í vörn og sókn en er mestmegnis notaður í vörninni hjá Magdeburg.

„Ég vissi alveg að ég væri ekki að fara að spila eins mikið og í Melsungen enda endaði það oftast í meiðslum hjá mér vegna of mikils álags.

Við erum náttúrlega með miklu fleiri leikmenn sem eru í heimsklassa og geta spilað og tekið ábyrgð. Það eru meiri hlutverkaskipti í Magdeburg og það hefur bara gengið vel að komast inn í þetta. Okkur líður vel þarna,“ sagði hann.

EM2026 – fréttasíða.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -