Í ljós kemur fimmtudaginn 21. mars hverjir verða andstæðingar íslenska landsliðsins í handknattleik karla í undankeppni Evrópumótsins sem haldið verður í ársbyrjun 2026 í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.
Til stendur að draga í riðli í Kaupmannahöfn þennan tiltekna dag. Undankeppnin hefst í október með tveimur leikjum en síðustu fjórir leikirnir fara væntanlega fram í mars og síðla í apríl vorið 2025.
Alls verða nöfn 32 þjóða í skálunum í kóngsins Kaupmannahöfn þegar dregið verður í átta fjögurra liða riðla.
Styrkleikalistarnir fyrir dráttinn hafa ekki verið gefnir út en leiða má líkum að því að íslenska landsliðið verði í efsta styrkleikaflokki þar sem fjórar þjóðir sem annars væru í efsta styrkleikaflokki, Danmörk, Noregur, Svíþjóð og Evrópumeistarar Frakklands, taka ekki þátt í undankeppninni.
Tvö lið munu komast áfram í lokakeppnina úr hverjum riðli undankeppninnar auk fjögurra af þeim átta sem hafna í þriðja sæti riðlanna.
Fjögur áfram úr forkeppni
Forkeppni fyrir undankeppnina var haldin í síðasta mánuði og komust Belgía, Kósovó, Lettland og Lúxemborg áfram. Lið þjóðanna fjögurra verða í neðsta styrkleikaflokki eins og lið fjögurra annarra þjóða.