„Riðillinn er mjög krefjandi. Þetta eru allt dúndur þjóðir sem við mætum,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla á fundi með blaðamönnum í vikunni þegar hann valdi æfingahópinn fyrir Evrópumótið og ræddi aðeins mótið sjálft en fyrsti leikur íslenska landsliðsins verðir 12. janúar vð landslið Serbíu í Ólympíuhöllinni í München.
Auk Serba mætir íslenska landsliðið Svartfellingum og Ungverjum. Tvö af fjórum liðum riðilsins halda áfram keppni um efstu sætin, önnur sitja eftir með sárt ennið.
Forkeppni ÓL
Markmið landsliðsþjálfarans er að komast í forkeppni Ólympíuleikana í gegnum þátttökuna á EM. Til þess verður íslenska landsliðið helst að vinna riðilinn og þar með alla andstæðingana þrjá.
Getum lent í vandræðum
„Það segir sig sjálft að til þess að ná árangri í lokakeppni verður að ná toppframmistöðu. Ég hef fulla trú á að hægt verði að kalla hana fram. Ef við spilum góða leiki þá eigum við að vinna þessar þjóðir. Ef við erum ekki á okkar degi þá getum við lent í vandræðum. Ég hef mikla trú á liðinu og að það nái góðum leikjum,“ sagði Snorri Steinn sem hefur formlegan undirbúningi með landsliðshópnum miðvikudaginn 27. desember.
Sama gengur yfir alla
„Ég ætla ekki að velta mér upp skorti á tíma til undirbúnings fyrir mótið. Sama gengur yfir alla sem taka þátt í EM,” sagði Snorri Steinn sem væntir þess að allir leikmenn mætir galvaskir til æfinga á þriðja degi jóla eftir að hafa kastað aðeins mæðinni yfir hátíðisdagana á undan.
Frí yfir jólin
„Stóru deildirnar ljúka allar keppni fyrir jól sem er alls ekki venjan en er að sama skapi gott fyrir drengina sem geta notið jólanna með fjölskyldum sínum. Ég held að allir nema einn ætli að halda upp á jólin hér á landi og svo mæta þeir á fyrstu æfingu 27. desember,“ sagði Snorri Steinn sem hefur Arnór Atlason þjálfara sér til halds og trausts.
Tveir leikir í Austurríki
Íslenska lansliðið fer til Austurríkis 5. janúar og leikur við landslið heimamanna í tveimur vináttuleikjum 6. og 8. janúar í Vínarborg og Linz. Eftir það verður farið yfir til München.
Leikir Íslands í C-riðli EM í München: 12. jan.: Ísland – Serbía, kl. 17. 14. jan.: Ísland – Svartfj. land, kl. 17. 16. jan.: Ísland – Ungv.land, kl. 19.30.
Tengt efni:
Forkeppni ÓL er fyrsta markmiðið – þarf framúrskarandi árangur
Fellur vel inn í þann handbolta sem ég vil spila
Gríðarlega mikilvægur enda mjög góður í handbolta
Elvar Örn er helsta spurningamerkið
Snorri Steinn hefur valið 20 til æfinga – 18 fara á EM