Norska handknattleikssambandið hefur komist að niðurstöðu í leit sinni að eftirmanni Christian Berge þjálfara karlalandsliðsins samkvæmt frétt NRK, norska sjónvarpsins í morgun. Til stendur að ráða Jonas Wille, sem var aðstoðmaður Berge síðustu mánuðina í starfi, sem landsliðsþjálfara.
Wille hefur þjálfað sænska liðið Kristianstad síðasta árið samhliða því að starfa við hlið Berge með landsliðið. Wille, sem er 46 ára gamall Norðmaður og fæddur í Halden, verður keyptur undan samningi hjá Kristianstad fyrir 75.000 norskar krónur, jafnvirði rúmlega einnar milljónar íslenskra.
Áður en Wille tók við þjálfun Kristianstad hafði hann m.a. þjálfað Halden í Noregi, Skövde í Svíþjóð og dönsku liðin Midtjylland og Mors-Thy en það síðastnefnda varð óvænt danskur bikarmeistari í karlaflokki fyrir ári undir stjórn Wille.
Norska handknattleikssambandið auglýsti í mars eftir þjálfara fyrir karalandsliðið. Engu að síður hafði sambandið sérstakan áhuga á Kristian Kjelling, Børge Lund, Michael Apelgren og Nicolej Krickau og Wille. Kjelling og Wille voru þeir einu sem sýndu starfinu áhuga samkvæmt frétt NRK.
Christian Berge, sem stýrt hefur landsliðinu í átta ár, óskaði eftir því í febrúar að vera leystur undan samningi eftir átta ára starf. Hann tekur við þjálfun Kolstad í sumar en forráðamenn þess hafa uppi miklar áætlanir að byggja upp eitt sterkasta félagslið í Evrópu á næstu árum.