- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Ég er gríðarlega ánægður með þetta“

Mynd/IHF
- Auglýsing -

„Ég var gríðarlega ánægður með orkustigið í liðinu. Varnarleikurinn var stórkostlegur í 60 mínútur auk þess sem markvarslan er rúm 45% sem er frábært. Þetta lagði grunninn að þessum frábæra sigri,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfari 20 ára landsliðs kvenna sem var í sjöunda himni eftir að liðið vann Svartfellinga, 35:27, í fyrri umferð milliriðlakeppni 16-liða úrslita heimsmeistaramótsins í handknattleik í Skopje í dag. Með sigrinum innsiglaði íslenska liðið sér sæti í átta liða úrslitum HM.

Ferskar á fótunum

„Svartfellingar eru erfiðir viðureignar. Liðið lék sjö á sex í sókninni í tæpar 50 mínútur. Fyrir vikið reyndi mjög á okkar lið. Stelpurnar eru bara mjög fitt og ferskar á fótunum. Þess vegna tókst þeim að mæta Svartfellingum alveg hreint ótrúlega vel,“ sagði Ágúst Þór sem hefur ásamt Árna Stefáni Guðjónssyni þjálfað þennan hóp fjórða árið í röð.

Annað sinn í átta lið úrslitum

Með sigrinum innsiglaði íslenska liðið sér sæti í átta lið úrslitum og er það í annað sinn í röð sem þessi árgangur nær svo langt á heimsmeistaramóti. Fyrir tveimur árum náði U18 ára landsliðið í átta liða úrslit en 13 af 16 leikmönnum U20 ára landsliðsins í dag voru í U18 ára landsliðinu sumarið 2022.

Stórkostleg staðreynd

„Það er stórkostleg staðreynd að þessi hópur hefur nú tryggt sér sæti í átta liða úrslitum annað heimsmeistaramótið í röð. Ég er gríðarlega ánægður með þetta. Við munum fagna þessum áfanga saman í kvöld en megum ekki gleyma okkur í gleðinni því við eigum mjög erfiðan leik við Portúgal á morgun. Við erum minnug stórtaps fyrir portúgalska landsliðinu á EM 19 ára landsliða fyrir ári. Okkar verkefni verður að veita þeim meiri keppni á morgun. Undirbúningur hefst strax í fyrramálið og hann munum við vanda af kostgæfni,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara U20 ára landsliðsins við handbolta.is í kvöld.

Sjá einnig:

Mögnuð frammistaða í dag – Ísland í átta liða úrslit á HM

HMU20 kvenna: Milliriðlar, leikir, úrslit og staðan

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -