- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Mögnuð frammistaða í dag – Ísland í átta liða úrslit á HM

Sigri fagnað: Tinna Sigurrós Traustadóttir, Rakel Oddný Guðmundsdóttir, Elín Klara Þorkelsdóttir, Inga Dís Jóhannsdóttir og Elísa Elíasdóttir. Mynd/IHF
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, er komið í átta liða úrslit á heimsmeistaramótinu í Skopje í Norður Makedóníu. Íslenska liðið vann Svartfellinga, 35:27, með hreint magnaðri frammistöðu í dag. Ekki síst í síðari hálfleik þegar nánast var eitt lið á vellinum. Ísland komst fyrst yfir í leiknum þegar nokkrar sekúndur voru eftir af fyrri hálfleik, 15:14.

Íslenska liðið hefur þar með unnið allar fjórar viðureignir sínar á mótinu.

Ísland er þar með efst í milliriðli fjögur með fjögur stig. Portúgal hefur þrjú stig eftir fyrsta jafnteflisleik mótsins við Norður Makedóníu í dag, 28:28. Norður Makedónía hefur eitt stig og Svartfjallaland ekkert. Ísland mætir Portúgal á morgun klukkan 16. Tvö lið fara áfram í átta liða úrslit og því skiptir í sjálfu sér ekki máli hverng leikurinn fer á morgun. Íslenska liðið er alltaf öruggt um sæti í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins.

HMU20 kvenna: Milliriðlar, leikir, úrslit og staðan

Svartfellingar voru sterkari framan af fyrri hálfleik í dag og höfðu frumkvæðið nær allan fyrri hálfleikinn. Íslenska liðinu tókst ítrekað að jafna metin en það var ekki fyrr en á síðustu sekúndum hálfleiksins sem Tinna Sigurrós náði forystunni fyrir Ísland, 15:14.

Svartfellingar léku sjö á sex í sókninni í fyrri hálfleik. Íslensku stúlkunum gekk vel að halda aftur af sóknarleik Svartfellinga þrátt fyrir allt og Ethel Gyða Bjarnasen varði vel í markinu. Hinsvegar gekk illa framan af að nýta möguleika fram á við. Þegar á leið gekk það betur sem skilaði sér í hraðaupphlaupum og mörkum eftir skot yfir völlinn í autt mark Svartfellinga. Góður kafli á síðustu mínútum fyrri hálfleiks veitti byr í seglin.

Strax í upphafi síðari hálfleiks tók íslenska liðið öll völd. Ekki stóð steinn yfir steini í sóknarleik Svartfellinga. Leikmönnum féll hvað eftir annað allur ketill í eld sem varð til þess að hraðaupphlaup, mörk eftir hraða miðju eða langskot yfir völlinn buldi á marki Svartfellinga. Þeir vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Íslenska liðið gekk á lagið og kjöldró Svartfellinga.

Mörk Íslands: Lilja Ágústsdóttir 13, Elín Klara Þorkelsdóttir 6, Elísa Elíasdóttir 5, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 4, Tinna Sigurrós Traustadóttir 4, Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín 1, Inga Dís Jóhannsdóttir 1, Katrín Anna Ásmundsdóttir 1.
Varin skot: Ethel Gyða Bjarnasen 19, 42%.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -