„Ég er í keppni við Finn Frey um hvor okkar verður oftar Íslandsmeistari. Ég er með einum titili meira auk þess sem ég á mikið fleiri deildarmeistaratitla en hann,“ sagði Stefán Arnarson þjálfari Fram hress og kátur eftir að Fram varð Íslandsmeistari í handknattleik kvenna undir hans stjórn í kvöld í framhaldi að hafa lagt Val í þriðja sinn í fjórum tilraunum í úrslitakeppni Olísdeildar kvenna.
Finnur Freyr sem Stefán vísar til er hinn sigursæli körfuknattleiksþjálfari, Finnur Freyr Stefánsson, sem stundum er kallaður Finnur sem allt vinnur.
Léttar – meiri orka
„Mér fannst lið mitt vera léttara og hafa meiri orku í leiknum í kvöld. Við fengum á okkur 11 mörk í fyrri hálfleik, þar af voru fimm eftir að við töpuðum boltanum. Við byrjuðum síðari hálfleikinn mjög vel en eftir að Valur breytti um vörn þá lentum við í erfiðleikum þrátt fyrir að við værum búin að búa okkur undir þessa breytingu.
Litlu hlutirnir sem skipta máli
En þegar öllu er á botninn hvolft þá skipta litlu hlutirnir máli í svona einvígi og þeir duttu okkar megin að þessu sinni. Valur er með frábært lið sem er vel þjálfað og þar af leiðandi er ég stoltur yfir að hafa haft betur í þessu einvígi,“ sagði Stefáni sem þótti úrslitakeppnin undirstrika að kvennahandboltinn er í mikilli sókn. Úrslitaleikirnir fjórir bera þess skýrt merki að mati Stefáns sem lengi hefur verið í fremstu röð þjálfara hér á landi.
„Mikil gæði voru í leikjunum fjórum á milli okkar og Vals þótt sá síðasti hafi reyndar verið sístur af þeim,“ sagði Stefán.
Lærðum af reynslu síðasta árs
Spurður hvernig honum takist að halda leikmönnum við efnið á löngu keppnistímabili sem staðið hefur yfir í níu mánuði svaraði Stefán. „Við fengum þriggja vikna hlé áður en úrslitakeppnin hófst og æfðum mjög vel og drógum um leið lærdóm af mistökum sem við gerðum á sama tíma í fyrra. Af þeirri ástæðu þá litum við mjög vel út þegar úrslitakeppnin hófst og við mættum ÍBV og unnum á sannfærandi hátt,” sagði Stefán en Framliðið féll úr keppni í undanúrslitum fyrir ári.
Mikið áfall að missa Ragnheiði
Tímabilið var ekki eintómur dans á rósum hjá Framliðinu og þjálfaranum. Stefán segir það hafa verið mikið áfall að missa Ragnheiði Júlíusdóttur út úr liðinu í janúar vegna veikinda.
„Ragnheiður er stórkostlegur leikmaður sem við söknuðum svakalega mikið. Það tók sinn tíma að leita leiða til þess að leysa þá þraut sem fólst í fjarveru Ragnheiðar. Við misstum bara sjö til átta mörk í leik. Með tímanum þá tóku aðrir leikmenn við, komu inn í staðinn fyrir hana og gerðu það vel eftir að við höfðum breytt leikaðferðum okkar nokkuð. Sem betur fer þá tókst vel til,“ sagði Stefán.
Sigurtímarnir bæta allt upp
Stefán hefur verið einstaklega sigursæll þjálfari á síðustu 20 árum. Hvernig gengur honum að viðhalda hungrinu eftir árangri ár eftir ár?
„Það koma tímabil þar sem maður er leiður og þreyttur en svo koma tímar eins og þessi þegar gaman er þá sigrar vinnast. Ég væri hinsvegar með mikið meiri orku ef börnin væru ekki að koma seint heim af djamminu,“ svaraði Stefán léttur í bragði en bætti svo við í öllu alvarlegri tón.
Er stoltur yfir árangrinum
„Ég hef átta sinnum verið þjálfari í úrslitaeinvígi, af þeim er þetta sjöundi sigurinn. Auk þess sem ég á sjö deildarmeistaratitla. Ég er mjög stoltur yfir árangrinum,“ sagði Stefán Arnarson, þjálfari Íslandsmeistara Fram. Hann stýrði Fram síðast til sigurs í úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn fyrir fjórum árum.