- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Ég er kominn heim!“

Íslendingar fóru í þúsundatali við Svíþjóðar í janúar til að styðja við bakið á karlalandsliðinu sem tók þátt í heimsmeistaramótinu. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Það voru Ungverjar sem endanlega sendu Íslendinga heim! frá heimsmeistarakeppninni í Svíþjóð og Póllandi 2023, þegar þeir lögðu landslið Grænhöfðaeyja 42:30 í Gautaborg, sunnudaginn 22. janúar. Það má segja að Ungverjar hafi fyrst greitt inn á farseðil Íslendinga heim í Kristianstad 14. janúar, þegar þeir fögnuðu óvæntum sigri 30:28. Eftir það urðu Íslendingar að treysta á aðra; til að komast í 8-liða úrslit. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ungverjar leggja stein í götu Íslendinga í HM-keppni. Það gerðu þeir einnig 1958, 1964 og 1997 í Kumamoto, þar sem þeir komu í veg fyrir að Ísland kæmist í undanúrslit.

Mynd/Hafliðið Breiðfjörð

 Stemningin hefur verið geysileg á áhorfendapöllunum í Kristianstad og Gautaborg, þar sem allt um 4.000 þúsund áhorfendur hafa hvatt Strákana okkar til dáða og sungið kröftuglega „Ég er kominn heim!“ þannig að landsliðsmenn, þjálfarar og erlendir áhorfendur og blaðamenn fengu gæsahúð. Menn sögðu eftir tap gegn Svíum, að Íslendingar ættu að sniðganga IKEA og ABBA í mótmælaskyni.

 Það hefur aftur á móti engin hvatt til að hætta að syngja lagið „Ég er komin heim!“ eftir tapið gegn Ungverjum.

 
Það vill svo til að lagið er óperettulag eftir Ungverja af gyðingaættum, Emmerich Kalman. Það heitir á þýsku „Heut’ nacht hab’ ich geträumt von dir“ („Í kvöld dreymdi mig um þig“) og er frá 1930 úr óperettunni Fjólan frá Montmartre. Talið er að lagið hafi borist til Íslands með kvikmynd 1958 og þá hafi Óðinn Valdimarsson, söngvari frá Akureyri heyrt það.  Jón Sigurðsson (í bankanum) var fenginn til að gera texta við lagið, sem varð geysilega vinsælt og er nú aftur í dag. Hálfgerður þjóðsöngur Íslendinga á íþróttavöllum; ásamt Víkingaklappi!

Mynd/Hafliði Breiðfjörð

 En snúum okkur aftur að Ungverjum, sem hafa oft verið Íslendingum erfiðir. „Ungverkst gúllas“ hefur þrisvar áður verið of sterkt á borði HM-kræsinga. Það hefur komið íslenskum handknattleiksmönnum í koll hvað þeir hafa verið matvandir. Þeir hafa ekki kunnað við veislumat ungverskra meistarakokka, sem hafa reynst Íslendingum erfiðir við borð kræsinga.

 1958 í Magdeburg

 Íslendingar mættu Ungverjum fyrst á HM í Austur-Þýskalandi 1958, þegar glímt var við þá í Magdeburg. Eftir glæsilegan sigur á Rúmenum, 13:11, kviknaði vonarneisti á að komast í milliriðil. Það var markvörður Ungverja sem slökkti á honum, með frábærri markvörslu. Ungverjar voru yfir í hálfleik, 7:11, en lokatölur urðu 16:19. Ungverjar töfðu leikinn í síðari hálfleik, en þá var ekki byrjað að dæma tafir og leikleysu, þegar menn héngu á knettinum. Íslendingar fóru þá að leika maður gegn manni og mikill hamagangur varð í öskjunni.

 Ungverjar og Tékkar fóru í milliriðil, annan af tveimur, með Þýskalandi og Noregi. Þeir léku síðan um 7. sæti við Júgóslava og unnu 24:11.

 * Ísland varð í 10. sæti.

 1964 í Bratislava

 Ungverjar slökktu einnig sigurbál á HM í Tékkóslóvakíu 1964, eftir að Íslendingar höfðu lagt Egypta 16:8 og Svía 12:10. Þá mátti Ísland tapa með 5 marka mun gegn Ungverjum og fara áfram í milliriðil með Svíum, með tvö stig í farteskinu. Mæta þar Vestur-Þjóðverjum og Júgóslövum.

 Íslendingar náðu sér ekki á strik gegn Ungverjum, sem unnu með 9 marka mun, 21:12, eftir að staðan var 9:7 fyrir Ungverja í leikhléi. Strákarnir okkar upplifðu martröð í síðari hálfleiknum, eins og gegn Ungverjum í Kristianstad á dögunum.

 Svíar léku til úrslita gegn Rúmenum og töpuðu 22:25. Danir unnu Ungverja í leik um 7. sætið, 23:14.

 * Ísland varð í 9. sæti.

 1997 í Kumamoto

 Ungverjar voru síðan aftur á ferðinni á HM í Kumamoto í Japan 1997, þar sem Íslendingar máttu þola tap fyrir þeim í 8-liða úrslitum. Strákarnir okkar höfðu þá leikið sex leiki og ekki tapað; unnið 5 (Japan, Júgóslavíu, Litháen, Sádi-Arabíu og Noreg) og gert eitt jafntefli (Alsír).

 Ungverjar unnu þá óvænt 26:25, eftir að Íslendingar höfðu átt í erfiðleikum. „Við getum sjálfum okkur kennt um hvernig fór. Lentum í eltingaleik, sem við töpuðum,“ sagði Þorbjörn Jensson, þjálfari, við pistlahöfund eftir leikinn.

 Strákarnir okkar voru vonsviknir. Ungverjar voru yfir í leikhléi, 14:11, og skoruðu tvö fyrstu mörkin í seinni hálfleiknum, 16:11. Strákarnir náðu að minnka muninn í eitt mark, 20:21 og síðan 22:23, en náðu ekki að slá Ungverja út af laginu!

 „Heppnin var með okkur, þegar við náðum fimm marka forskoti í upphafi síðari hálfleiksins,“ sagði Sándro Vass, þjálfari Ungverja.

 * Ísland hafnaði í 5 sæti, eftir að hafa lagt Spán, 32:23, og Egypta að velli, 23:20.

 Ungverjar töpuðu gegn Svíum í undanúrslitum, 19:31 og fyrir Frökkum í leik um 3., sætið; 27:28. Sovétmenn urðu heimsmeistarar, unnu Svía í úrslitaleik 23:21.

Júlíus Jónasson, Valdimar Grímsson og Geir Sveinsson komu við sögu í HM í Kumamoto 1997.

 Besta landslið Íslands

 Á heimsmeistaramótinu í Kumamoto tefldi Ísland fram, að mínu mati, sterkasta og besta liði í landsliðssögu Íslands, undir stjórn Þorbjarnar Jenssonar. Strákarnir okkar lögðu Dani að velli í frækilegu einvígi um farseðilinn til Kumamoto. Fyrst í Reykjavík 27:21 og síðan í Álaborg 24:22.

 Landsliðshópur Íslands í Kumamoto var þannig skipaður:

* Markverðir: Guðmundur Hrafnkelsson, Bergsveinn Bergsveinsson og Reynir Þór Reynisson.

* Horna og línumenn, talið frá vinstri: Gústaf Bjarnason, Björgvin Þór Björgvinsson, Konráð Olavson. Geir Sveinsson, Róbert Sighvatsson. Valdimar Grímsson, Bjarki Sigurðsson og Jason Ólafsson, sem var tilbúinn að leysa vinstri hornamennina af og einnig Ólaf í skyttuhlutverki.

* Skyttur og leikstjórnendur: Julian Róbert Duranona, Júlíus Jónasson, Patrekur Jóhannesson, Dagur Sigurðsson og Ólafur Stefánsson.

 Patrekur fór einnig í hlutverk skyttu vinstra megin.

12 af þessum 16 leikmönnum hafa leikið með þýskum liðum. Þeir fjórir sem gerðu það ekki voru Bergsveinn, Reynir Þór, Björgvin Þór og Bjarki.

 Þessir leikmenn léku 9 harða leiki og var árangurinn þannig:

 9 -7 – 1 – 1 – 205:180.

* Valdimar Grímsson var valinn í sjö manna lið HM og hann varð þriðji markahæsti leikmaðurinn, skoraði 52 mörk.  Kyung-Shin Yoon, Suður-Kóreu, var markahæstur með 62 mörk og Ungverjinn Jozsef Eles annar með 59 mörk.

Fyrir viðureign Íslands og Brasilíu á HM í Gautaborg í kvöld. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

 2023 Kristianstad og Gautaborg

 Það var strax ljóst fyrir HM í Svíþjóð og Póllandi, að það yrði að leggja Portúgal og Ungverjaland að velli í D-riðli, til að taka með sér 4 stig í milliriðil og komast í 8-liða úrslitin. Það var aldrei hægt að treysta á sigur gegn geysilega öflugum Svíum á heimavelli. Þá var ekki hægt að reikna með öðru en sigri Portúgals og Ungverjalands á Brasilíu og Grænhöfðaeyjum.

 Ungverjaland var sem oft áður gryfja sem Ísland féll í; og það strax í öðrum leik. Grátlegt tap, 28:30, eftir að staðan var 17:12 í leikhléi og síðan 20:15. Þá slógu Ungverjar Íslendinga út af laginu og fögnuðu óvæntum sigri.

 Tjaldið féll síðan í dag, er Ungverjaland vann Grænhöfðaeyjar 42:30. Ungverjar sendu Strákana okkar og öflugan stuðningsmannahóp; Heim!

 * Ísland hafnar í 9.-16. sæti.

Tack för mig,

Härliga tider!

Sigmundur Ó. Steinarsson.

HM 2023 – Milliriðlar, leikjadagskrá, staðan

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -