„Ég er sársvekktur með úrslitin því ég var sáttur við spilamennsku minna manna lengi vel í þessum leik. Færanýtingin fór með leikinn hjá okkur, ekki síst í fyrri hálfleik. Eftir fyrri hálfleik áttum við að vera með gott forskot í stað þess að vera með jafna stöðu,“ sagði Magnús Stefánsson þjálfari ÍBV í samtali við handbolta.is eftir átta marka tap ÍBV fyrir FH í áttundu umferð Olísdeildar karla í handknattleik í Kaplakrika í kvöld, 35:27.
Getum sjálfum okkur um kennt
„Við fórum illa með línufæri, hraðaupphlaup, vítaköst og fleira í fyrri hálfleik sem er ólíkt okkur í þessari stöðu. Að því sögðu þá tókst okkur að skapa okkur öll þessi færi. Við getum hreinlega okkur sjálfum um kennt að hafa ekki spilað betur úr möguleikunum. Því fór sem fór,“ sagði Magnús ennfremur en ÍBV hefur níu stig eftir átta leiki í fimmta sæti deildarinnar þegar hálfsmánaðarhlé hefur verið gert á keppni í Olísdeildinni. Valur er fimm stigum ofar í efsta sæti.
Nýtt FH-lið í síðari hálfleik
„FH-ingur voru rosalega sterkir í síðari hálfleik. Það má eiginlega segja að það komi hreinlega nýtt lið þá til leiks. Þeim tókst að kúpla sig út úr þeim fasa sem þeir voru í allan fyrri hálfleikinn. Á hinn bóginn gekk það ekki upp hjá okkur í dag að snúa við blaðinu í síðari hálfleik og ná okkur upp þeim vandræðum sem við vorum í. Uppleggið klikkaði hjá mér. Áherslurnar voru því miður ekki réttar,“ sagði Magnús sem hrósaði sínum mönnum fyrir baráttu og vilja allan leikinn þótt fátt félli þeim í hag.
Þarf að skoða uppleggið
„Ég þarf aðeins að leggjast yfir uppleggið hjá mér fyrir þennan leik og hvort það hafi verið eitthvað sem ég hefði getað gert öðruvísi,” sagði Magnús Stefánsson þjálfari ÍBV í samtali við handbolta.is í Kaplakrika í kvöld.
Skarð var fyrir skildi hjá ÍBV að bræðurnir Arnór og Ívar Bessi Viðarssynir tóku ekki þátt í leiknum.