„Þetta var fimmti sigur okkar í röð. Liðið er á réttri leið og mætir vel álaginu sem fylgir því þegar leikið er þétt og dagskráin er krefjandi,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Aftureldingar, eftir fjögurra marka öruggan sigur á Fjölni-Fylki, 27:23, í Grill 66-deild kvenna í handknattelik að Varmá í gærkvöldi.
Afturelding er þar með komið upp í þriðja sæti deildarinnar með 10 stig eins og Valur U sem situr í fjórða sæti. Ungmennalið Fram og Grótta eru efst með 12 stig hvort, Fram að loknum sjö leikjum en Grótta hefur leikið einum leik fleira og situr yfir í næstu umferð. Vegna þess að níu lið eru í deildinni þarf eitt að sitja yfir í hverri umferð.
„Leikmenn hafa æft mjög vel og það er afar jákvætt og gott umhverfi í kringum liðið hér í Mosfellsbæ. Við erum afar þakklát fyrir það. Þessi góði stuðningur smitast út í liðið sem hefur mikinn metnað og undirstrikast með hversu vel leikmenn æfa og leggja mikla einbeitingu í það sem þeir eru að gera,“ sagði Guðmundur Helgi sem tók við þjálfun Aftureldingarliðsins fyrir um ári síðan, ekki löngu áður en skellt var í lás í fyrsta sinn vegna kórónuveirunnar.
Mjög þétt er leikið í Grill 66-deildinni þessar vikurnar og tveir leikir að jafnaði á viku. „Þegar dagskráin er svona þétt þarf að hlúa að leikmönnum, bæði líkamlega og andlega.
Ég er mjög stoltur af liðinu og leikmönnunum sem æfa mjög vel. Við höfum ekki komist hjá meiðslum og hnjaski eins og önnur lið. Innan okkar raða ríkir bjartsýni um framhaldið. Að minnsta kosti ætlum við að gera eins vel og við getum, hér eftir sem hingað til,“ sagði Guðmundur Helgi sem segir að styrkleiki Grill 66-deildarinnar hafi komið sér á óvart. Hún væri mun betri en hann hafi átt von á.
„Deildin er sterk og margir góðir leikmenn og flott lið. Kvennahandboltinn er tvímælalaust á uppleið,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Aftureldingar.
Í stuttu máli sagt þá var Aftureldingarliðið sterkara liðið í leiknum í gærkvöld að Varmá og hafði góða forystu frá upphafi. Vörnin var á tíðum mjög góð og Eva Dís Sigurðardóttir, 19 ára markvörður, sem kölluð var inn í æfingahóp landsliðsins í fyrsta sinn í gær, stóð vaktina af árverkni í markinu.
Afturelding var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 15:11.
Mörk Aftureldingar: Anamaria Gugic 6, Birna Lára Guðmundsdóttir 4, Ragnhildur Hjartardóttir 4, Drífa Garðarsdóttir 3, Katrín Helga Davíðsdóttir 3, Úlfhildur Tinna Lárusdóttir 3, Þórhildur Vala Kjartansdóttir 2, Telma Rut Frímannsdóttir 1, Susan Ines Gamboa 1.
Mörk Fjölnis-Fylkis: Anna Karen Jónsdóttir 6, Ada Kozicka 4, Katrín Erla Kjartansdóttir 4, Azra Cosic 3, Eyrún Ósk Hjartardóttir 3, Kristín Lísa Friðriksdóttir 1, Sara Björk Davíðsdóttir 1, María Ósk Jónsdóttir 1.