- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ég fann á ný ástríðuna fyrir handboltanum

Rúnar Kárason stórskytta Fram. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

„Mér gekk líka vel í fyrra en sennilega var nýliðið tímabil ennþá betra,“ sagði Rúnar Kárason nýkrýndur Íslandsmeistari með ÍBV sem útnefndur var besti leikmaður Olísdeildar karla í handknattleik á lokahófi HSÍ í hádeginu á fimmtudaginn.

„Ég bjó mig betur undir tímabilið í vetur en veturinn á undan, bjó að reynslu og uppskeran varð eftir því. Þegar hlutirnir ganga upp þá er bara gaman að fá staðfestingu á að maður er ekki alveg úti á þekju,“ sagði Rúnar léttur í bragði en auk þess að vera valinn besti leikmaður Olísdeildarinnar á leiktíðinni hreppti hann nafnbótina mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar og varð auk þess markahæstur í úrslitakeppninni og sló um leið ævagamalt markamet Julian Duranona.

Ekki langt á eftir

„Heilt yfir gekk okkur Eyjamönnum vel í deildinni þótt okkur hafi kannski gengið illa í fyrstu leikjunum meðan við vorum að stilla saman strengina. Þegar upp var staðið höfnuðum við í þriðja sæti í Olísdeildinni, ekki langt á eftir deildarmeisturunum,“ sagði Rúnar og bætti við.

Rúnar Kárason var valinn mikilvægasti leikmaður úrslitakeppni Olísdeildar karla. Hér fagnar hann í oddaleiknum við Hauka á dögunum. Mynd/Mummi Lú

Smávægileg aðgerð

„Eftir hléið í janúar þá fannst mér leikmannahópurinn þéttast mikið. Fyrstu þremur leikjunum eftir HM-hléið var frestað af ýmsum ástæðum og við áttum þar af leiðandi marga leiki eftir þegar loksins var byrjað að spila. Á þessum tíma fór ég í smávægilega aðgerð á hné þar sem lagfærð var lítilsháttar brjóskskemmd. Örnólfur læknir var viss um að ég yrði bara fjórar vikur frá og sú varð raunin. Ég náði þremur síðustu leikjunum í deildinni og síðan úrslitakeppninni og gekk mjög vel svo ekki sé fastara að orði kveðið.“

Fullir sjálfstrausts

„Það var geggjað að koma inn í liðið aftur, að því er virtist á réttum tíma. Þá var hópurinn orðinn mjög vel samstilltur. Sigrar okkar í síðustu þremur umferðum deildarinnar voru mjög sannfærandi og við fórum sigurstranglegastir og fullir sjálfstrausts inn í úrslitakeppnina. Það var bara ótrúlega gaman að sjá hvernig allt raðaðist saman hjá okkur á síðustu vikunum. Allir á sömu blaðsíðu. Ég er ótrúlega stoltur hvernig við Eyjamenn kláruðum tímabilið,“ sagði Rúnar.

Ekki bara íþróttafélag

„Það skipti gríðarlegu máli fyrir okkur að vinna titilinn og endurgjalda öllu því fólki sem leggur hjarta sitt og sál í félagið. ÍBV er meira en íþróttafélag, það er nánast eins og trúarbrögð. Við sáum svipað gerast á Sauðárkróki og í Skagafirði þegar Tindastóll vann Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta karla um daginn.

Gat greitt til baka

„Fyrir mig persónulega skipti líka miklu máli að geta borgað eitthvað til baka til allra þeirra sem tóku vel á móti mér og fjölskyldu minni þegar við komum til Eyja og á meðan við höfum dvalið þar,“ sagði Rúnar sem hefur selt húsnæði sitt í Eyjum og er að flytja á ný á höfuðborgarsvæðið.

Eftirsjá

Rúnar flutti heim fyrir tveimur árum eftir 12 ára veru í atvinnumennsku í Þýskalandi og Danmörku. Honum stóð til boða vera áfram ytra, var með tilboð frá félögum en ákvað að láta hjartað ráða för og koma heim. Árin tvö í Eyjum hafa verið Rúnari hagstæð á handknattleiksvellinum enda hefur hann lagt hart að sér. Um miðjan mars var tilkynnt að Rúnar hafi samið við uppeldisfélag sitt, Fram. Rúnar segir eftirsjá ríkja þegar hann kveður Vestmannaeyjar en einnig eftirvænting að takast á við nýjar áskoranir með Fram.

Rúnar Kárason, ÍBV, með Valdimarsbikarinn sem hann hlaut einnig að þessu sinni fyrir frammistöðu sína í Olísdeildinni í vetur. T.v. er Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ. Mynd/HSÍ

Margir góðir vinir

„Ég er þakklátur fyrir veruna í Vestmannaeyjum þar sem mér hefur liðið vel. Hins vegar er lífið þannig að maður verður að gera breytingar. Ég er spenntur fyrir því sem tekur við hjá Fram en að sama skapi mun ég búa að kynnum mínum af Vestmannaeyjum og fólki sem þar býr allt mitt líf. Ég hef eignast marga góða vini í Eyjum sem ég mun leggja mikið kapp á að rækta vinskap við. Þótt veru minni í Eyjum sé lokið í bili er ekki þar með sagt að ég sé að slíta tengslin við Eyjuna og fólkið.“

Ekki slegið slöku við

Að mörgu leyti sló Rúnar nýjan tón þegar hann flutti heim með frammistöðu sinni og metnaði innan vallar sem utan. Sagt hefur verið að Rúnar hafi æft og leikið eins og hann væri enn í atvinnumennsku í Evrópu. Hann hafi ekki slegið slöku við. Rúnar segir að það hafi verið meðvituð ákvörðun. Hann hafi ekki flutt heim til þess að sjá ferilinn fjara út.

„Mitt metnaðarmál er að verða áfram vaxandi leikmaður. Eftir á að hyggja hefur mér tekist það.

Tímabilið áður en ég flutti heim var sennilega eitt það allra besta af 12 árum mínum í atvinnumennsku. Þótt ég væri með góð tilboð frá mjög sterkum liðum þá var ég og fjölskyldan búin að fá nóg af lífi atvinnumannsins.

Íslandsmeistarar ÍBV í handknattleik karla 2023. Mynd/Mummi Lú

Fann ástríðum á ný

Mér þótti það spennandi áskorun að koma heim, vera góður og vinna. Margir í mínum sporum hafa flutt heim þegar búið hefur verið að brenna kertið í báða enda. Ég ætla ekki að gera lítið úr því enda hafa menn flutt heim á mismunandi forsendum.

Þegar ég var kominn á fullt hér heima þá kviknaði ákveðin ástríða fyrir handbolta, eitthvað sem hafði ef til vill legið í dvala.

Það var gaman að rifja upp af hverju manni dreymdi um að verða atvinnumaður í handbolta. Segja má að íslenska deildin sér ástríðudeild þar sem ég fann á ný ástríðuna fyrir handboltanum,“ sagði Rúnar Kárason Íslandsmeistari í handknattleik með ÍBV og besti leikmaður Olísdeildar karla leiktíðina 2022/2023.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -