Samningur HSÍ við Arnar Pétursson landsliðsþjálfara kvenna í handknattleik rennur út um næstu mánaðamót. Fastlega er reiknað með að samstarfinu verði haldið áfram. Fimm ár verða liðin í sumar frá því að Arnar var ráðinn landsliðsþjálfari.
„Ég hlýt að fá nýjan samning eftir þetta,“ sagði Arnar laufléttur í bragði í samtali við handbolta.is í gær eftir að landsliðið undir hans stjórn tryggði sér þátttökurétt á Evrópumótinu í fyrsta sinn í 12 ár.
„Viðræður er langt komnar. Það má segja að það standi frekar á mér en HSÍ að loka málinu. Að undanförnu hefur verið í mörg horn að líta og ekki gefist tími til þess að ganga frá þessu,“ sagði Arnar sem hlakkar til þátttökunnar á Evrópumótinu sem fram fer í Austurríki, Ungverjalandi og Sviss frá 28. nóvember til 15. desember.
Dregið verður í riðla Evrópumótsins í Vínarborg fimmtudaginn 18. apríl. Líkur eru fyrir að Arnar verði viðstaddur þegar dregið verður en hann verður ytra af öðrum ástæðum um þetta leyti og hyggst leggja lykkju á leið sína og koma við í Vínarborg.
Ísland verður í þriðja styrkleikaflokki af fjórum þegar dregið verður eins og handbolti.is sagði frá í dag.
Sjá einnig: Ísland verður í þriðja flokki þegar dregið verður í riðla EM kvenna