„Þeir sem voru tæpir og meiddir hafa náð að koma til baka. Að öðru leyti höfum við verið að halda okkur gangandi síðustu daga. Gera okkur klára í þennan slag,“ segir Einar Jónsson þjálfari bikarmeistara Fram sem mætir Val í fyrsta úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla í kvöld. Leikurinn fer fram í N1-höll Vals á Hlíðarenda og hefst klukkan 19.30.
Miðasala á stubb.is – smellið hér.
Erum vel undirbúnir
„Fram og Valur eru augljóslega tvö bestu liðin um þessar mundir. Ég vænti þess að þetta verði hörku einvígi. Við teljum okkur vera vel undirbúna og ætlum að leggja allt í sölurnar til að vinna titilinn en hafa um leið gaman af því að taka þátt og vera komnir þetta langt. Þar að auki búum við yfir talsverðri reynslu vegna þess að í vetur höfum við unnið leikina þegar mikið hefur verið undir,“ segir Einar sem mun geta telft fram sinni vöskustu sveit í upphafi rimmunar.

Hálf þriðja vika
Hálf þriðja vika er síðan undanúrslitarimmu Fram og FH lauk með eftirminnilegum tvíframlengdum leik. Óhætt að segja að Framliðið hafi fengið talsverðan tíma til þess að safna kröftum fyrir atlöguna að fyrsta Íslandsmeistaratitlinum í 12 ár.
Gaf strákunum frí
„Ég gaf strákunum frí helgina eftir að viðureigninni við FH lauk. Síðan hefur verið hefðbundið prógram hjá okkur við æfingar. Þetta hefur svo sem verið ágætur tími fyrir okkur þótt við hefðum alveg lifað af ef vika hefði liðið frá því að undanúrslitum lauk þangað til að kom að fyrsta úrslitaleiknum,“ sagði Einar en hlé vegna landsleikja sleit úrslitakeppnina í sundur.
Eftirminnilegir úrslitaleikir
Valur og Fram hafa ekki mæst í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í 27 ár. „Ég man eftir einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn 1998. Fyrr sama ár mættust liðin einnig í úrslitum bikarkeppninnar í einum af eftirminnlegri úrslitaleikjum keppninnar frá upphafi,“ sagði Einar Jónsson þjálfari Fram sem var þjálfari Framliðsins sem varð meistari 2013 þegar félagið varð Íslandsmeistari síðast í karlaflokki. Fram lagði þá Hauka í úrslitum, 3:1, í vinningum talið.
Sjá einnig: Fróðleiksmolar: Feðgar, bræður, þjálfarar, leikmenn, afmælisdagur
„Nú er komið að því að láta slag standa“