„Niðurstaðan var ótrúlega fúl. Ég var í fýlu í nokkra daga. En sem betur fer eigum við ennþá möguleika á fara upp í úrvalsdeildina,“ sagði Andrea Jacobsen landsliðskona í handknattleik í samtali við handbolta.is.
Lið hennar, EH Aalborg, var í efsta sæti dönsku 1. deildarinnar allt þangað til í næst síðustu umferð þegar liðið tapaði fyrir Bjerringbro með þriggja marka mun og missti þar með af efsta sæti deildarinnar í hendur Bjerringbro á markatölu. Efsta sætið veitir keppnisrétt í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.
Annað sætið kom í hlut Andreu og samherja. Framundan er umspil um sæti í úrvalsdeildinni. Fyrst gegn Horsens sem hafnaði í þriðja sæti næst efstu deildar. Fyrsti leikurinn af mögulega þremur verður 15. apríl. Takist EH Aalborg að vinna Horsens tekur við rimma gegn næst neðsta liði úrvalsdeildarinnar um sætið eftirsótta í úrvalsdeildinni. Kjallarakeppni úrvalsdeildarinnar er ekki hafin en Ajax þykir fyrirfram veikast af þeim liðum sem koma til með að berjast í fallkeppninni.
Staðráðnar í að fara upp
„Það er þó jákvætt að við eigum möguleika á að fara upp í gegnum umspilið. Eftir landsleikjahlé mætum við Horsens. Ef við vinnum Horsens er líklegast að við mætum Ajax. Mér sýnist við eiga góða möguleika gegn Ajax svo við höldum vongóðar inn í umspilið. Staðráðnar í að fara upp,” sagði Andrea sem er hér á landi við æfingar með landsliðinu fyrir leikina mikilvægu gegn Ungverjum þar sem undir verður þátttökuréttur á heimsmeistaramótinu sem fram fer síðar á þessu ári.
Stórleikur á laugardag – ókeypis aðgangur
Fyrri viðureign Íslands og Ungverjalands fer fram á Ásvöllum í Hafnarfirði á laugardaginn. Flautað verður til leiks klukkan 16. Frítt verður á leikinn í boði Icelandair. Síðari leikurinn verður í Érd í Ungverjalandi eftir rétta viku.
Andrea endurnýjaði nýverið samning sinn við EH Aalborg auk þess sem Elín Jóna Þorsteinsdóttir landsliðsmarkvörður gengur til liðs við félagið í sumar.
Landsliðið valið fyrir leikina mikilvægu við Ungverja
- Erum með betra lið og meiri breidd
- Aldís Ásta og félagar eru í frábærri stöðu
- Þúsundir Færeyinga stefna á EM – 20 flugferðir auk þess sem Norræna siglir til Óslóar
- Verður snúinn leikur í mikilli stemningu
- Væri til í að vinna einn bikar með Melsungen