- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ég virði ákvörðun þeirra

Þórey Rósa Stefánsdóttir og Sunna Jónsdóttir hafa leikið sína síðustu landsleiki. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -


Arnar Pétursson landsliðsþjálfari staðfesti við handbolta.is í dag að Sunna Jónsdóttir, ÍBV, og Þórey Rósa Stefánsdóttir, Fram, hafi ákveðið að þær hafi leikið sína síðustu landsleiki eftir um 15 ár með landsliðinu. Þórey Rósa lét hafa það eftir sér í viðtali við Vísir eftir EM í desember að hún hafði þá að öllum líkindum leikið sinn síðasta landsleik. Sunna hafði ekki gefið í skyn að hún ætlaði að binda enda á feril sinn með landsliðinu.

Arnar segist hafa rætt við Sunnu og Þóreyju Rósu og hann virði ákvörðun þeirra.

Sunna hefur leikið 99 landsleiki og skorað í þeim 66 mörk. Hún var í EM-hópnum 2010 og aftur 2024 auk þess að vera með á HM 2023. Sunna var fyrirliði landsliðsins um árabil.
Sunna Jónsdóttir fyrirliði í 99. og síðasta landsleiknum, gegn Þýskalandi á EM í Innsbruck 3. desember 2024. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Fannst vera komið að ákveðnum tímapunkti

„Þeim fannst vera komið að ákveðnum tímapunkti á landsliðsferlinum eftir EM í desember. Ég virði þeirra ákvörðun og skoðun eftir langan tíma með landsliðinu,“ segir Arnar en báðar hafa leikið með landsliðinu meira og minna í hálfan annan áratug. Sunna var t.d. með á fyrsta lokamóti landsliðsins, EM 2010 og Þórey Rósa lék með á HM 2011.

Þórey Rósa Stefánsdóttir þakkar áhorfendum fyrir stuðninginn eftir sigur leik á Úkraínu á EM 1. desember 2024. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
Þórey Rósa hefur leikið 145 landsleiki og skoraði í þeim 413 mörk. Hún er þriðja markahæst í landsliðinu frá upphafi og einnig sú þriðja leikjahæsta.

Stoltur af því að hafa unnið með þeim

„Ég er stoltur að því að hafa notið þeirra reynslu og styrkleika á þeirri vegferð sem landsliðið hefur verið á síðan ég tók við sem landsliðsþjálfari 2019. Þær hafa báðar verið gríðarlega mikilvægar og lagt mikið að mörkum. Beggja verður saknað en þetta er hluti af ferlinum í íþróttum. Ég virði ákvörðun þeirra beggja að stíga skrefið og láta gott heita. Um leið vona ég að þær verði hluti af handboltahreyfingunni og taki þátt í starfinu hvor á sinn hátt áfram þótt hlutverkin breytist,“ segir Arnar Pétursson landsliðsþjálfari í handknattleik kvenna í samtali við handbolta.is í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -