Arnór Atlason aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í handknattleik. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -
„Egyptar leika hægari sóknarleik en Slóvenar, hafa hærri, þyngri og líkamlega sterkari leikmenn og gera sitt mjög vel. Sóknarleikur Egypta er mjög ólíkur þeim sem Slóvenar leika,“ segir Arnór Atlason aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í handknattleik spurður um muninn á slóvenska landsliðinu sem íslenska landsliðið vann í fyrrakvöld á HM og egypska landsliðinu sem íslenska landsliðið mætir klukkan 19.30 í milliriðlakeppni HM.
„Egyptar leggja áherslu meðal annars á að tveir menn vinni saman í stað þess að Slóvenar eru meira í leika maður á mann. Við verðum að búa okkur undir breytingar á varnarleik okkar,“ segir Arnór og bætir við það sé ákveðin fegurð við að taka þátt í heimsmeistaramóti hversu ólíkir andstæðingarnir geta verið á milli daga.
Í stöðugri framför
Arnór segir stöðugar framfarir eiga sér stað hjá egypska landsliðinu. „Það hefur vantað örlítið upp á að vera í topp fjórum. Egyptar töpuðu meðal annars naumlega fyrir Spánverjum í átta liða úrslitum á Ólympíuleikunum í sumar. Þeir hafa valdið stórþjóðum á borð við Dani og Frökkum erfiðleikum. Auk þess sáum við skýrt í síðasta leik Egypta hér á HM þegar þeir unnu Króata hversu sterkt liðið er,“ segir Arnór.
„Þetta er mjög sterkt lið með öfluga leikmenn sem margir þekkja ef til vill ekki mikið. Nokkrir leika með félagsliðum í heimalandinu en aðrir eru hjá mjög góðum félagsliðum í Evrópu sem meðal annars leika í Meistaradeildinni,“ segir Arnór Atlason aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins í handknattleik.
Lengra viðtal við Arnór er að finna í myndskeiði ofar í þessari grein.