- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

EHF getur sett strik í reikning Olísdeildar

Nicholas Satchwell, markvörður KA, gæti verið kallaðurinn í færeyska landsliðið í janúar. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson.
- Auglýsing -

Handknattleikssamband Evrópu, EHF, mun vera að skoða um þessar mundir að bæta inn leikdögum í undankeppni EM2022 í karlaflokki í janúar á meðan HM í Egyptalandi stendur yfir. Þetta hefur handbolti.is samkvæmt heimildum. Þá myndu landslið þeirra þjóða sem ekki taka þátt í HM leika tvo leiki í undankeppninni EM. Annað hvort leiki sem var frestað í byrjun nóvember eða þá viðureignir sem annars stendur til að fari fram í mars eða í lok apríl. Þeim leikjum yrði þá flýtt til að hliðra til fyrir leikjum sem var frestað í byrjun nóvember hjá þeim sem taka þátt í HM.

EHF leitar með logandi ljósi að leikdögum fyrir frestuðu leikina en undankeppni EM2022 á að vera lokið í byrjun maí á næsta ári.

Ekki bara Íslendingar

Verði af þessum áformum EHF gæti það sett strik í reikninginn á keppni í Olísdeild karla sem áhugi er fyrir að standi yfir í janúar til viðbótar við þá staðreynd að margt bendir til að nokkrir leikmenn úr Olísdeildinni verða vafalaust í 20 manna hópi Íslands sem fer á HM. Hér á landi leika landsliðsmenn a.m.k. tveggja þjóða leiki með liðum í Olísdeild.

Til dæmis gætu landsliðs Litháen og Ísraels, sem eru með Íslandi og Portúgal í riðli, mæst tvisvar. Eins gætu Færeyingar leikið við Úkraínu til að losa um leikdaga vegna leikja sinna við Tékka sem frestað var í nóvember. Tékkar verða með á HM. Belgar, Grikkir, Lettar, Ítalir og fleiri gæti leikið í janúar, svo dæmi sé tekið.

Deildarkeppni mun hvort sem er liggja niðri allstaðar í Evrópu í janúar, nema hugsanlega á Íslandi, enda hefur meira og minna verið leikið í flestum landsdeildum álfunnar í haust og í vetur þrátt fyrir kórónuveirusmit.

Fimm Færeyingar leika með liðum í Olísdeildinni. Koma þeir allir til álita í færeyska landsliðið. Þar er um að ræða Áka Egilsnes, Allan Nordberg og Nicholas Satchwell leikmenn KA og Rögva Dal Christiansen og Vilhelm Poulsen leikmenn Fram. Auk þess var Vilius Rasimas markvörður Selfoss í landsliði Litháen í gegn Íslandi og Portúgal í byrjun þessa mánaðar. Hann kemur væntanlega áfram til álita í landslið Litháen.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -