- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Eigum að geta strítt þeim – óskað er eftir stuðningi

Sandra Erlingsdóttir leikmaður TuS Metzingen og íslenska landsliðsins. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Fyrri leikurinn er okkur mjög mikilvægur. Við verðum að ná hagstæðum úrslitum til þess að síðari leikurinn ytra verði áframhaldandi úrslitaleikur um HM-sætið. Ég held að við eigum alveg möguleika og er þess vegna mjög spennt fyrir leiknum hér heima. Vonandi fáum við sem flesta áhorfendur til þess að styðja við bakið á okkur,“ sagði Sandra Erlingsdóttir landsliðskona í handknattleik í samtali við handbolta.is í gær áður en landsliðið æfði í síðasta sinn saman fyrir stórleikinn við Ungverja í undankeppni HM á Ásvöllum í dag.


Rúmenskir dómarar flauta til leiks klukkan 16 á Ásvöllum í Hafnafirði og er aðgangur á leikinn endurgjaldslaus í boði Icelandair.


Íslenska landsliðið hefur æft af miklum krafti síðan á mánudaginn og ætlar að leggja allt í sölurnar. Síðari viðureignin fer fram í Érd í Ungverjalandi á miðvikudaginn. Samanlagður sigurvegari leikjanna tveggja öðlast þátttökurétt á HM sem haldið verður í Danmörku, Noregi og Svíþjóð í lok nóvember og framan af desember á þessu ári.

Vörn og hraðaupphlaup

„Fyrst og fremst verðum við að leika góða vörn. Einnig að keyra hressilega í bakið á þeim þar sem þær eru frekar seinar til baka. Í uppstilltum sóknarleik eigum við möguleika á að einangra leikmenn ungverska liðsins sem sumar eru hægar. Ef það tekst eigum við að vera með réttu lausnirnar,“ sagði Sandra og bætti við að leikmenn ungverska landsliðsins væru í flestum tilfellum hávaxnar og þungar.

Fljótar fram, hægar til baka

„Þær eru fljótar fram í sókn en hægar aftur í vörnina. Við verðum að nýta alla vankanta sem við finnum á leik þeirra til þess að eiga möguleika í leiknum,” sagði Sandra sem væntanlega verður í aðalhluverki við að stjórna sóknarleik íslenska landsliðsins í sínum 19. A-landsleik.


Ungverska landsliðið lék fyrir um mánuði tvo vináttuleiki, annarsvegar við Þýskaland og hinsvegar Pólland. Tveir samherjar Söndru hjá þýska félagsliðinu TuS Metzinger leika með pólska landsliðinu sem mætti ungverska landsliðinu í fyrrnefndum leik.


„Þær pólsku sögðu mér að ungverska liðið væri mjög fínt en það væri einnig brothætt. Margir leikmenn eru ungir og pressan er á þeim. Við eigum vel að geta strítt þeim ungversku ef við leikum okkar besta leik,“ sagði Sandra Erlingsdóttir landsliðskona og er hvergi bangin.

Ókeypis aðgangur er á leikinn klukkan 16 á Ásvöllum á laugardaginn í boði Icelandair. Það er tekið fram hér þótt auglýsingastofan sem vinnur fyrir Icelandair hafi ekki minnsta áhuga á að kaupa auglýsingu af handbolti.is né séð sér fært að láta svo lítið að svara óskum þar um.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -