Íslenska landsliðið í handknattleik karla lauk undankeppni Evrópmótsins með öruggum sigri, 33:21, á Georgíu í Laugardalshöll síðdegis. Ísland lauk þar með keppni í 3. riðli undankeppni EM með 12 stig í sex leikjum. Á morgun kemur í ljós hvort Ísland verði eitt sex þjóða í efsta styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla lokakeppni EM sem fram fer í Danmörku, Svíþjóð og Noregi frá 15. janúar til 1. febrúar á næsta ári. Víst er að íslenska landsliðið hefur keppni í Kristianstad.
Fyrri hálfleikur var afar góður af hálfu íslenska liðsins. Leikmenn voru afar einbeittir og fyrstu 15 til 20 mínúturnar komust leikmenn Georgíu varla áfram í sóknarleik sínum. Íslenska liðið fékk mörg hraðaupphlaup auk þess sem sóknarleikurinn gekk vel. Yfirburðir voru miklir gegn vængbrotnu liði Georgíu sem hafði heldur ekki að miklu keppa, það var einnig öruggt í lokakeppnina.
Undankeppni EM karla “26: úrslit leikja og staðan




Staðan í hálfleik var 20:11, Íslandi í vil. Eftir 40 mínútur var forskotið 14 mörk, 25:11. Eftir það leystist leikurinn upp. Sóknarnýting íslenska liðsins í síðari hálfleik var ekki góð. Mörg færi og sóknir fóru forgörðum. Það kom ekki að sök því getumunurinn á liðunum var mikill auk þess sem varnarleikur íslenska liðsins gekk afar vel með Einar Þorstein Ólafsson og Ýmir Örn Gíslason í aðalhlutverkum.
Viktor Gísli Hallgrímsson var frábær í marki íslenska liðsins. Lék tæpar 50 mínútur og var með 50% hlutfallsmarkvörslu.
Mörk Íslands: Orri Freyr Þorkelsson 8/2, Óðinn Þór Ríkharðsson 4, Þorsteinn Léo Gunnarsson 4, Janus Daði Smárason 3, Kristján Örn Kristjánsson 3, Ómar Ingi Magnússon 2, Arnar Freyr Arnarsson 2, Reynir Þór Stefánsson 2, Andri Már Rúnarsson 2, Viggó Kristjánsson 1, Elvar Örn Jónsson 1, Ýmir Örn Gíslason 1.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 16, 51,6% – Ísak Steinsson 2, 25%.
Mörk Geogíu: Giorgi Tskhovrebadze 7, George Lapiashvili 5, Giorgi Arvelodi Dikhaminjia 3, Giorgi Areshidze 2, Mirian Gavashelishvil 2, Zurab Gogava 1, Zurab Abramishvili 1.
Varin skot: David Nikabadze 8, 38,1% – Zurab Tsintsadze 7, 26%.
Handbolti.is var í Laugardalshöll og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.