- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Eins marks tap er bæði blóðugt og leiðinlegt

- Auglýsing -


Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals var ánægðari með leik sinna manna í kvöld en eftir fyrsta úrslitaleikinn í rimmunni við Fram á fimmtudagskvöld. Engu að síður tapaði Valur leiknum, 27:26, og stendur frammi fyrir þeirri staðreynd að mega ekki tapa næstu viðureign sem fer fram í N1-höllinni á Hlíðarenda á næsta fimmtudag.


„Eins marks tap er bæði blóðugt og leiðinlegt,“ sagði Óskar Bjarni rámur í viðtali við handbolta.is í Lambhagahöllinni í kvöld.

„Við spiluðum mikið betur í kvöld þótt mér þykir við eiga ennþá mikið inni, jafnt í vörn sem sókn.“

Óskar Bjarni sagðist ekki geta metið það hvort það hafi verið skref á Breka Hrafn Árnason markvörð Fram þegar hann átti í erfiðleikum með boltanum frá sér nokkrum sekúndum fyrir leikslok í framhaldi af stangarskoti Bjarna í Selvindi, leikmanns Vals, 10 sekúndum fyrir leikslok. Eins var spurning hvort Bjarni hafi átt að fá aukakast.

Alltaf spurning

„Það er alltaf spurning um hvort dæma eigi á leikmann sem næst skoti í kontakt. Mér fannst dómararnir dæma jafnt á slík báðum megin. Mér fannst frekar að þeir hefðu mátt hafa meiri afskipti af hraða leiksins og hvort hendur þeirra hefðu mátt koma oftar og fyrr upp, hafa meiri stýringu á leiknum.

Dýrt þegar litlu munar

Allt er þetta dýrt þegar munurinn er ekki nema eitt mark. Í síðasta leik vorum við marki undir nærri leikslokum þegar mér fannst við eiga að fá vítakast. Í kvöld var spurning um brot á þá og hvort við hefðum náð einu skoti í viðbót á markið. Mér fannst aðeins halla á okkur en ég er ekki alveg hlutlaus,“ sagði Óskar Bjarni og glotti aðeins við tönn.

Áfram gakk

Hvernig sem öllu líður þá er staðan sú að Valur verður að vinna heimaleikinn á fimmtudaginn til að eiga möguleika á fleiri leikjum í rimmunni um Íslandsmeistartitilinn.

„Nú verðum við að vinna á fimmtudaginn. Það er þungt að vera tveimur leikjum undir en við verðum að spila rétt úr stöðunni og taka hana sem áskorun. Áfram gakk,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari karlaliðs Vals.

Lengra viðtal við Óskar Bjarna er í myndskeiði hér fyrir ofan.

Var bara orðinn þyrstur í að komast inn á

Fram er einum vinningi frá meistaratitlinum

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -