Eins og handbolti.is sagði frá í gær var Einar Jónsson þjálfari kvenna- og karlaliðs Fram úrskurðaður í eins leikbann á fundi aganefndar 2. maí vegna framkomu sinnar í viðureign Fram og Hauka í þriðju umferð undanúrslita Olísdeildar kvenna á verkalýðsdaginn. Ennfremur kom fram að málinu væri ekki lokið af hálfu aganefndar. Á fundi sínum í gær ákvað aganefnd að bæta einum leik við og verður Einar bíta í það súra epli að taka út tveggja leikja bann.
Aganefnd fór yfir hegðun Einars á ný á fundi í gær, föstudaginn 3. maí. Var m.a. farið yfir greinargerð frá Fram. Einnig var lesin greinargerð frá eftirlitsmanni og skoðuð myndbandsupptaka af atvikinu.
„Ljóst er að framganga þjálfarans var mjög ógnandi og ódrengileg. Þá þurfti gæslumaður að skerast í leikinn og fjarlægja þjálfarann í tvígang, bæði eftir útilokun og að leik loknum. Niðurstaða aganefndar er sú að ákvarða þjálfaranum 1 leiks bann til viðbótar,“ segir m.a. í fundargerði aganefndar sem birt var á vef HSÍ í gærkvöld.