Landslið Sádi Arabíu undir stjórn Erlings Richardssonar komst ekki í átta liða úrslit handknattleikskeppni Asíuleikanna í morgun. Sádi Arabía og Íran skildi jöfn, 23:23, í síðasta leik D-riðils keppninnar. Hvort lið hlaut 3 stig í þremur leikjum. Íran komst áfram í átta liða úrslit á einu marki. Íranar voru með samanlagt 22 mörk í plús en Sádi Arabía 21 mark eftir þrjá leiki.
Eins og áður segir vann japanska landsliðið, sem Dagur Sigurðsson þjálfar, riðilinn. Japan lagði Mongólíu, 53:16, í síðustu umferðinni sem leikinn var í nótt eða snemma morguns að íslenskum tíma en leikarnir fara fram í Hangzhou í austurhluta Kína.
Stórsigur hjá Aroni
Aron Kristjánsson og liðsmenn landsliðs Barein unnu landslið Úsbekistan, 47:25, í síðustu umferð C-riðils. Barein vann báðar viðureignir í riðlinum en aðeins voru þrjú landslið í A, B og C-riðlum en fjögur í D-riðli þar sem m.a. voru landslið Japan og Sádi Arabíu.
Hefst á föstudaginn
Auk Japan, Íran og Barein komust Kúveit, Kína, Katar, Suður Kórea og Kasakstan í átta liða úrslit handknattleikskeppninnar í karlaflokki sem hefst á föstudaginn.
Leikið verður í tveimur átta riðlum í átta liða úrslitum. Barein verður í riðli með Íran, Suður Kóreu og Kúveit.
Í hinum riðlum mæta Japanir landsliðum Katar, Kasakstan og Kína.