Sigurganga Ómars Inga Magnússonar og Gísla Þorgeirs Kristjánssonar með SC Magdeburg heldur áfram en í dag vann liðið sinn áttunda leik í þýsku 1. deildinni í handknattleik er það lagði Erlangen með eins marks mun á heimavelli, 28:27.
Ómar Ingi skoraði sjö mörk, þar af fimm úr vítaköstum, og átti auk þess sex stoðsendingar sem skiluðu mörkum. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði þrjú mörk
Teitur Örn Einarsson skoraði þrjú mörk þegar Flensburg sótti Göppingen heim í suðurhluta Þýskalands. Úr varð mikill spennutryllir þar sem heimamenn tryggðu sér annað stigið á síðustu sekúndu leiksins.
Flensburg komst yfir, 30:29, þegar 19 sekúndur voru til leiksloka. Þjálfari Göppingen tók leikhlé, bætti sjöunda manninum í sóknina. Breytingar skiluðu jöfnunarmarki frá Jon Lindenchrone Andersen.
Fyrsti leikur Viggós
Viggó Kristjánsson lék sinn fyrsta leik með Stuttgart á keppnistímabilinu en hann fingurbrotnaði tveimur dögum fyrir fyrsta leik liðsins í byrjun september. Viggó skoraði fjögur mörk og átti tvær stoðsendingar þegar Stuttgart tapaði naumlega í heimsókn til Wetzlar, 35:34. Andri Már Rúnarsson skoraði ekki mark fyrir Stuttgart að þessu sinni.
Stefan Cavor skoraði sigurmark Wetzlar rétt áður en leiktíminn rann út en þá hafði Wetzlarliðið hangið á boltanum í nærri því eina mínútu.
Bjarki Már Elísson skoraði fjögur mörk í naumu tapi Lemgo á heimavelli fyrir Füchse Berlin, næst efsta liði deildarinnar, 28:27.
Leik hætt vegna veikinda
Leik HSV Hamburg og Melsungen var hætt eftir rúmlega 22 mínútur vegna alvarlegra veikinda áhorfenda í keppnishöllinni í Hamborg. Óstaðfestar fregnir herma að um sé að ræða ættingja eins af leikmönnum Hamborgarliðsins.
Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem leik er hætt í miðjum klíðum í þýsku 1. deildinni vegna veikinda á meðal áhorfenda. Fyrr í þessum mánuði veiktist áhorfandi á leik Wetzlar og Bergischer. Veikindin voru svo alvarleg að lífi hans varð ekki bjargað.