„Annan leikinn í röð erum við alltof æstar í upphafi leiks og förum langt fram úr okkur. Þar af leiðandi lentum við í brattri brekku,“ sagði Thea Imani Sturludóttir landsliðskona í samtali við handbolta.is í eftir níu marka tap íslenska landsliðsins fyrir franska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í handknattleik kvenna í Stafangri í kvöld, 31:22. Frakkar skoruðu átta fyrstu mörkin á átta mínútu.
Lesa vel úr stöðunni
„Þær eru rosalega kvikar og fljótar á fótunum auk þess sem að vera mjög klókar að lesa úr stöðunni sem kemur upp í leiknum hverju sinni. Þar af leiðandi er gríðarlega erfitt að eiga við þær,“ sagði Thea sem skoraði þrjú mörk í leiknum í kvöld og átti eins og margar af leikmönnum íslenska liðsins í mestu vandræðum með frönsku varnarmennina.
Réðum ekkert við hraðann
„Við hefðum átt að róa niður leikinn í upphafi í stað þess að falla strax í að leika þeirra leik, það er hratt. Við réðum bara ekki við það í byrjun og misstum þar með allt út úr höndunum.
Allt annað var upp á teningnum í síðari hálfleik. Þá var meiri ró yfir okkar leik. Það er ekki nóg að vera í jöfnum leik í síðari hálfleik þegar við erum tíu mörkum undir eftir fyrri hálfleik,“ sagði Thea Imani.
Vantar öryggi á boltann
„Við verðum að draga úr sveiflum í okkar leik, skila boltanum betur á markið en við vorum oft að gera og hlaupa einnig betur til baka í vörnina. Okkur vantar meira öryggi á boltann,“ sagði Thea Imani sem lauk lofsorði á markvörðinn Elínu Jónu Þorsteinsdóttur.
Stolt af Elínu Jónu
„Ég er mjög stolt af Elínu Jónu í markinu. Við gerðum henni ekki mikinn greiða lengst af í kvöld en víst er að hún gerði okkur mikinn greiða,“ sagði Thea Imani Sturlusdóttir leikmaður íslenska landsliðsins í samtali við handbolta.is í Stafangri í kvöld.