Elvar Ásgeirsson var valinn í úrvalslið 13. umferðar dönsku úrvalsdeildarinnar í framhaldi af stórleiknum sem hann átti í gærkvöld með Ribe-Esbjerg í sigurleik á GOG. Þetta í fyrsta sinn sem Elvar er valinn í úrvalslið umferðarinnar. Reyndar er ekki algengt að erlendir leikmenn hreppi sæti í úrvalsliði umferðarinnar í dönsku úrvalsdeildinni í karlaflokki.
Eins og handbolti.is sagði frá í gærkvöld þá fór Elvar á kostum með Ribe-Esbjerg í naumum sigri liðsins á GOG, 34:33. Elvar skoraði sjö mörk í átta skotum, þar af tvö síðustu mörkin, auk þess að eiga nokkrar stoðsendingar. Einnig lét Mosfellingurinn til sín taka í vörninni.
Elvar fór á kostum og tryggði sigur á meisturunum
Við val á úrvalsliði umferðarinnar er litið til framlagsstiga sem hver leikmaður hlýtur fyrir frammistöðu sín í hverjum kappleik dönsku úrvalsdeildarinnar.
Ribe-Esbjerg er í fjórða sæti í dönsku úrvalsdeildinni með 16 stig að loknum 13 leikjum. Stöðuna í dönsku úrvalsdeildinni og í fleiri deildum í evrópskum handknattleik er að finna hér.