MT Melsungen með Selfyssinginn Elvar Örn Jónsson í broddi fylkingar heldur fjögurra stiga forskoti í efsta sæti þýsku 1. deildarinnar í handknattleik. Melsungen vann öruggan sigur á Göppingen í gær, 30:23, á heimavelli. THW Kiel, sem vann Magdeburg á heimavelli í gærkvöld, 31:25, er næst á eftir með 28 stig.
Arnar Freyr er frá keppni
Arnar Freyr Arnarsson lék ekki með Melsungen í sigurleiknum á Göppingen. Arnar Freyr hefur ekki ennþá jafnað sig eftir að hafa tognað á lærvöðva í vináttuleik landsliða Íslands og Svíþjóðar rétt fyrir heimsmeistaramótið í síðasta mánuði.
Elvar Örn markahæstur
Elvar Örn skoraði fimm mörk og átti eina stoðsendingu og var að vanda á meðal aðsópsmestu leikmanna Melsungen. Hann var markahæstur ásamt Timo Kastening. Svartfellski markvörðurinn Nebojsa Simic fór á kostum í marki Melsungen, varði 13 skot, 44,8%.
Uppselt var á leikinn í Rothenbach-Halle, Kassel, 4.491 áhorfandi greiddi aðgangseyri.
Ýmir Örn Gíslason fyrirliði Göppingen tók mest þátt í varnarleiknum og var m.a. einu sinni vikið af leikvelli.
Elliði með en Teitur meiddur
Elliði Snær Viðarsson skoraði þrjú mörk og var einu sinni vikið af leikvelli í öruggum sigri Gummersbach á Stuttgart á heimavelli, 36:29. Teitur Örn Einarsson lék ekki með Gummersbach vegna meiðsla. Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari Gummersbach sem er í áttunda sæti með 18 stig.
Níu mörkum undir í hálfleik
Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði tvö mörk og gaf sex stoðsendingar í sex marka tapi meistaraliðsins SC Magdeburg í heimsókn til THW Kiel, 31:25. Ómar Ingi Magnússon er ennþá fjarverandi vegna meiðsla sem hann varð fyrir í byrjun desember. THW Kiel var níu mörkum yfir í hálfleik, 20:11.
Magdeburg er í sjötta sæti með 21 stig eftir 15 leiki. Liðið á tvo til þrjá leiki inni á liðin fyrir ofan m.a. vegna tveggja frestaðra leikja sem frestað var eftir árásina á jólamarkaðinn í Magdeburg.
Stöðuna í þýsku 1. deildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.