Talsverður áhugi er fyrir að halda Evrópumót kvenna í handknattleik sem fram á að fara í 2026. Þrjár umsóknir hafa borist og verður unnið úr þeim á næstunni og atkvæði greidd um þær á fundi framkvæmdastjórnar Handknattleikssambands Evrópu, EHF, í janúar.
Til stóð að EM kvenna 2026 færi fram í Rússlandi. Vegna innrásar Rússa í Úkraínu var horfið frá að halda mótið í Rússlandi. Auglýsti EHF í sumar eftir áhugasömum þjóðum sem vildu hlaupa í skarðið fyrir Rússa. Eins og fyrr segir bárust þrenn bindandi boð um að halda mótið frá fimm handknattleikssamböndum.
Leikið til úrslita í Istanbúl
Tyrkir standa einir að umsókn um EM 2026. Einnig vilja Pólverjar og Tékka taka að sér mótahaldið í sameiningu. Sömu sögu er að segja af Rúmenum og Slóvökum sem ætla að ganga í eina sæng og sækjast eftir að verða gestgjafi EM kvenna árið 2026.
Fari svo að Tyrkir verði hlutskarpastir fer mótið fram í Ankara, Antalya og Istanbul. Helsta tromp Tyrkja er Sinan Erdem Dome-keppnishöllin í Istanbúl sem rúmar 16.500 áhorfendur.
Brno, Lubin og Katowice
Komi mótið í hlut Pólverja og Tékka stendur til að keppt verði Brno í Tékklandi og í Lubin Katowice í Póllandi. Spodek Arena í Katowice er teflt fram í umsókninni sem vettvangi úrslitahelgarinnar. Spodek Arena getur tekið á móti liðlega 11 þúsund áhorfendum.
Úrslitin í Transylvaníu
Hreppi Rúmenar og Slóvakar hnossið hafa þeir skipulagt að mótið fari fram í Cluj-Napoca í Transylvanía, eða Sjöborgalandi, Pitesti, Craiova í Rúmeníu og í Bratislava og Košice í Slóvakíu.
Ráðgert að úrslithelgi mótsins fari fram í BT Arena í Cluj-Napoca í Sjöborgalandi. Tíu þúsund áhorfendur komast með góðu móti fyrir í sæti í BT Arena sem tekin var í gagnið fyrir níu árum.
EM kvenna í handknattleik á næsta ári fer fram í Austurríki, Sviss og Ungverjalandi frá 28. nóvember til 15. desember. Þangað stefnir íslenska landsliðið ótrautt á þátttöku.
Tengt efni:
Hver hleypur í skarðið fyrir Rússa?
Fimm sýna áhuga á að hlaupa í skarð Rússa
Margir vilja verða gestgjafar EM