- Auglýsing -
- Auglýsing -

EM kvenna 2026 verður haldið í fimm löndum

Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Evrópumót kvenna í handknattleik árið 2026 fer fram í fimm löndum, Póllandi, Rúmeníu, Slóvakíu, Tékklandi og Tyrklandi. Framkvæmdastjórn Handknattleikssambands Evrópu, EHF, samþykkti þessa niðurstöðu á fundi sínum fyrir helgina. Þetta verður í fyrsta sinn sem lokakeppni Evrópumóts í handknattleik fer fram í svo mörgum löndum.

Átti að fara fram í Rússlandi

Til stóð að lokakeppni EM kvenna 2026 færi fram í Rússlandi eftir umsókn landsins hlaut brautargengi fyrir þremur árum þegar afgreiddar voru umsóknir um að halda EM karla og kvenna fyrir árinu 2026 og 2028. Eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu fyrir röskum tveimur árum varð fljótlega ljóst að rússneska handknattleikssambandið gæti ekki orðið gestgjafi EM 2026 eins og til stóð. EHF vísaði Rússum og Hvít-Rússum úr öllum mótum landsliða og félagsliða nokkrum dögum eftir innrásina sem enn stendur yfir.

Á síðasta sumri var réttur rússneska handknattleikssambandsins til þess að halda EM 2026 afturkallaður. Um leið var óskað eftir umsóknum um mótahaldið frá öðrum aðildarþjóðum EHF.

Sneru bökum saman

Tékkar og Pólverjar sýndu áhuga á að halda mótið í sameiningu auk þess sem handknattleikssambönd Rúmeníu, Spánar og Tyrklands sendu hvert sína umsóknina. Spánverjar heltust úr lestinni enda komnir með hugann við HM kvenna 2029 eða 2031. Þegar formlegar umsóknir voru sendar inn voru Pólverjar og Tékkar ákveðnir sem fyrr að krækja í mótið. Rúmenar og Slóvakar höfðu einnig snúið bökum saman auk þess sem Tyrkir töldu sig fullfæra um að halda mótið einir síns liðs.

Pólverjar og Slóvakar hafa reynslu

Niðurstaðan varð Salómonsdómur, að taka tillit til allra umsókna og dreifa mótinu á milli þjóðanna fimm, Póllands, Rúmeníu, Slóvakíu, Tékklands og Tyrklandi. Aðeins Pólverjar og Slóvakar hafa reynslu af því að vera gestgjafi stórmóta í handknattleik.

Leikstaður liggja fyrir

EM kvenna í handknattleik 2026 fer fram frá 3. til 20. desember.

Riðlakeppnin verður leikin í Oradea og Cluj-Napoca í Rúmeníu, Antalya í Tyrklandi, Brno í Tékklandi, Katowice í Póllandi og í Bratislava í Slóvakíu.

Endasprettur í Póllandi

Milliriðlakeppnin verður háð í Cluj-Napoca og í Katowice auk þess sem síðarnefnda borgin verður gestgjafi úrslitahelgar mótsins. Katowice hefur áður verið vettvangur kappleikja á EM karla 2016 og HM karla 2023. Keppnishöllin í Katowice rúmar 10 þúsund áhorfendur í sæti.

Stærsta keppnishöll mótsins er í Cluj-Napoca í Transylvanía eða Sjöborgalandi. Hún rúmar 11 þúsund áhorfendur.

Áður en EM kvenna fer fram í fimm löndum árið 2026 kemur röðin að EM í lok þessa árs sem haldið verður í Austurríki, Ungverjalandi og Sviss. Þangað stefnir íslenska landsliðið ótrautt.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -