Í lokaleik dagsins á EM í handknattleik voru það heimastúlkur í Danmörku sem mættu Slóveníu í Herning og höfðu betur, 30:23.
Slóvenska liðið byrjaði af miklum krafti og hafði frumkvæðið á upphafsmínútunum og voru með eins marks forystu 4-3 eftir sjö mínútna leik. Þá var eins og þær dönsku náðu að finna taktinn í sóknarleik sínum sem og að þær þéttu raðirnar í varnarleiknum, þar sem þær náðu algjörlega að loka á Tjösu Stanko og Önu Gros, stórskyttur slóvenska liðsins. Þær stöllur náðu aðeins að skora saman 5 mörk í fyrri hálfleik.
Á aðeins fjórum mínútum breyttist staðan úr 4-3 Slóvenum í vil yfir í 8-4 Dönum í hag. Allt stefndi í nokkuð þægilegan fyrri hálfleik fyrir danska liðið þar sem þær voru ávallt með 3-4 marka forystu. Síðustu níu mínútur fyrri hálfleiksins voru hins vegar Dönum erfiðar þar sem þær skoruðu ekkert einasta mark. Það var eitthvað sem þær slóvensku nýttu sér aðeins og breyttu stöðunni úr 14-9 í 14-12 og þar við sat í hálfleik.
Það sást á leik Dana í byrjun seinni hálfleiks að Jesper Jensen þjálfari hafði náð að hvetja liðið til dáða því að þær dönsku byrjuðu hálfleikinn af miklum krafti og skoruðu fyrstu þrjú mörk hálfleiksins og juku forystu sína í 17-12.
Slóvenska liðið náði aldrei að svara fyrir sig og var sóknarleikur liðsins á köflum tilviljunarkenndur. Það átti hreinlega engin svör við öflugum varnarleik danska liðsins. Danir fóru að lokum með öruggan sjö marka sigur 30-23 og sýndi svo sannarlega að þeir ætla sér stóra hluti í þessu móti á heimavelli.
Þríeykið olli vonbrigðum
Það var mikið talað um þríeykið svokallaða hjá Slóvenum, Gros, Stanko og Omoregie í aðdraganda mótsins en þær ollu vægast sagt miklum vonbrigðum. Þær stöllur náðu sér engan veginn á strik og saman voru þær með 10 mörk. Nýtingin þeirra var heldur ekki góð, Ana Gros var með 3 mörk úr 6 skotum, Tjasa Stanko 4 mörk úr 10 skotum og Elizabeth Omoregie með 3 mörk úr 5 skotum. Það er alveg ljóst að ef Slóvenar ætli að eiga möguleika á að komast uppí milliriðla þá þurfa þær stöllur að skila mun betra framlagi til liðsins en í kvöld.
Danmörk – Slóvenía 30-23 (14-12)
Mörk Danmerkur: Larke Pedersen 6, Kristina Jorgensen 5, Trine Jensen 5, Anne Mette Hansen 3, Kathrine Heindahl 2, Line Haugsted 2, Mia Rej Bidstrup 2, Mette Tranborg 1, Andrea Hansen 1, Louise Burgaard 1, Mie Hojlund 1.
Varin skot: Sandra Toft 9, Althea Reinhardt 1.
Mörk Slóveníu: Natasa Ljepoja 5, Barbara Lazovic 5, Tjasa Stanko 4, Ana Gros 3, Elizabeth Omoregie 3, Nina Zulic 2, Maja Svetik 1.
Varin skot: Amra Pandzic 5, Maja Vojnovic 2.