Átta dagar eru þangað til flautað verður til leiks á Evrópumeistaramóti kvenna í handknattleik í Danmörku. Handbolti.is kynnir liðin 16 til leiks hvert á fætur öðru á næstu dögum allt til 3. desember. Nú er röðin komin að Krótaíu. Tengil inn á fyrri kynningar er m.a. að finna neðst í þessari grein.
Árangur króatíska liðsins á síðustu tveimur Evrópumeistaramótum hefur ekki verið uppá marga fiska. Liðið vann ekki leik og skoraði alls 59 mörkum færra en það fékk á sig í sex leikjum.
Að þessu sinni mæta Króatar til leiks með meiri reynslu í farteskinu sem og að það virðist vera hægt og bítandi að nálgast bestu liðin. Hvort að það dugi til þess að komast uppúr riðlakeppninni verður tíminn að leiða í ljós.
Sostaric með 17 að heiman
Neven Sostaric stýrir króatíska liðinu á öðru stórmótinu í röð. Hann valdi 17 leikmenn sem spila í heimalandinu, fimm sem leika í Frakklandi, Rússlandi og Ungverjalandi. Mikið mun mæða á leikstjórnandanum Dejana Milosavljevic en hún hefur spilað gríðarlega vel það sem af er í Meistaradeild kvenna með liði sínu, Podravka. Milosavljevic hefur skorað 42 mörk í sex leikjum Podravka.
Lykilmaður - Dejana Milosavljevic Þetta verður annað EM sem þessi 26 ára gamli leikstjórnandi tekur þátt í en hún er líkleg til þess að vera ein af stjörnum króatíska liðsins sér í lagi ef hún nær að sýna sama stöðugleika sem hún hefur náð að sýna með félagsliði sínu í vetur. Á síðasta móti lék Milosavljevic aðeins 41 mínútu og skoraði eitt mark. Hún hefur nú fengið stærra hlutverk í liðinu og það mun koma í hennar verkahring að stýra sóknarleik liðsins.
Mun liðið komast í milliriðla?
Þetta verður níunda Evrópumeistaramótið í röð hjá króatíska liðinu en liðið hefur ekki náð að komast í milliriðlakeppnina frá árinu 2010. Þrátt fyrir vonbrigði á nokkrum mótum þá hefur liðið gengið í gegnum uppbyggingu á undanförnum árum þar sem nokkrir af lykilleikmönnum liðsins hafa horfið á braut og yngri leikmenn hafa tekið við. Hvort að þessir leikmenn séu nú tilbúnir til þess að koma liðinu uppí milliriðlakeppnina verður að koma í ljós en það er ljóst að verkefnið verður erfitt.
Fyrri árangur liðsins: Þátttaka á Evrópumeistaramótum: 11 6. sæti 2008 Náð í milliriðla 2006, 2008 og 2010 Heimsmeistaramót: 6 6. sæti 1997 Ólympíuleikar 7. sæti 2012
Grannaslagur gæti skipt máli
Liðið er í riðli með heimsmeisturum Hollands, Ungverjalandi og þær þurfa að ná að töfra fram eitthvað óvænt á móti þessum liðum ef þær ætla ekki að fara heim að lokinni riðlakeppninni á þessu móti og líklega verður lokaleikur riðilsins þegar að liðið mætir Serbíu úrslitaleikur um það hvort liðið fari áfram í milliriðla.
Leikir Króatíu í C-riðli: 4.12. Ungverjal. - Króatía kl. 17.15 6.12. Króatía - Holland, kl. 17.15 8.12. Serbía - Króatía, kl. 17.15. RÚV sýnir flesta leiki EM.
Fyrri kynningar, smellið á þjóðarheiti: Pólland.