„Eftir svekkjandi tap fyrir Portúgal í gær þegar við gáfum svolítið eftir í lokin þá var á hreinu frá byrjun leiksins í dag að við ætluðum okkur að ljúka mótinu á sama hátt og við hófum það, með sigri,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir annar þjálfara U17 ára landsliðs kvenna í handknattleik við handbolta.is í morgun eftir að íslenska liðið lauk þátttöku sinni á Evrópumótinu í Svartfjallalandi með níu marka sigri á landsliði Norður Makedóníu, 34:25.
„Stelpurnarar hafa verið frábærar og sýnt mikinn karakter allt mótið. Fyrstu 10 mínútur voru erfiðar en eftir að við breyttum um vörn, fórum í 5/1 þá blossaði upp barátta í liðinu og okkur tókst að vinna boltann hvað eftir annað og skora auðveld mörk í bakið á leikmönnum Norður Makedóníu,“ sagði Rakel Dögg en m.a. skoraði íslenska liðið fimm mörk í röð og náði þriggja marka forskoti síðla í fyrri hálfleik.
Gleði og barátta einkennandi
„Gleði og barátta einkenndi þennan leik okkar sem var frábærlega vel spilaður. Til viðbótar fengum við framlag frá öllum leikmönnum,“ sagði Rakel Dögg sem segir þjálfarateymi íslenska liðsins vera sátt við frammistöðu liðsins á mótinu. Liðið lék sjö leiki frá 3. ágúst og var inni í þeim öllum þótt vissulega hafi komið kaflar í mörgum leikjanna þar sem gera hafi mátt betur.
Stigum framfaraskref
„Niðurstaðan er fimmtánda sæti mótsins, tveir sigurleikir í sjö leikjum. Við erum gríðarlega sátt með margt í okkar leik á mótinu. Við stigum framfaraskref í hverjum leik og liðið þróaðist vel. Til viðbótar þá vorum við inni í öllum leikjunum. Vissulega voru kaflar hér og þar sem við gátum staðið okkur betur. Við göngum sáttar frá borði, stoltar yfir okkar frammistöðu,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir annar þjálfara U17 ára landsliðs kvenna en ásamt henni er Sigurjón Friðbjörn Björnsson þjálfari.