„Því miður þá byrjuðum við alveg hrikalega illa og þess vegna var leikurinn mjög erfiður alveg til enda,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir annar þjálfara U17 ára landsliðs kvenna eftir sex marka tap fyrir Tékkum í síðasta leik riðlakeppni Evrópumótsins í Podgorica í kvöld, 28:22.
Eins og Rakel Dögg sagði þá var upphafskaflinn slakur. Tékkar skoruðu átta af fyrstu níu mörkum leiksins á fyrstu rúmu átta mínútunum. Ljóst er að mikill skrekkur var í stelpunum. „Við áttum í miklum erfiðleikum með að skora. Sóknarleikurinn var slakur og við náðum okkur alls ekki á strik. Í hálfleik vorum við níu mörkum undir,“ sagði Rakel Dögg og bætti við að liðið hafi sýnt mikinn styrk í síðari hálfleik og tekist að minnka muninn niður í þrjú mörk eftir að hafa verið níu mörkum undir í hálfleik, 16:7.
„Það er erfitt að vera í eltingaleik allan síðari hálfleik en okkur tókst að minnka muninn í þrjú mörk oftar en einu sinni,“ sagði Rakel Dögg.
Hvað var sagt í hálfleik?
Spurð hvað hún og Sigurjón Friðbjörn hinn þjálfar liðsins hafi sagt við stelpurnar í hálfleik til að fá þær til að fá trú á verkefnið áfram verandi níu mörkum undir svaraði Rakel Dögg:
„Við lögðum áherslu á að sýna mikið meiri karakter og baráttu, ekki síst varnarlega. Leggja okkur í heild meira fram og njóta þess um leið að spila handbolta og vera á stórmóti. Auk þess ættum við aðeins að hugsa um eina vörn í einu. Þetta skilaði sér þannig að við skoruðum sex fyrstu mörkin í síðari hálfleik. Fyrstu 20 mínúturnar í síðari hálfleik voru hreint frábærar hjá stelpunum.“
Höfum að miklu að keppa
Framundan eru leikir við Sviss og Svíþjóð í milliriðli á þriðjudag og á miðvikudag. Þess vegna kemur ekkert annað til greina en að herða upp hugann.
„Við höfum að nægu að keppa því við eigum ennþá mjög raunhæfa möguleika á að vinna okkur inn bæði sæti á næsta EM og HM og stefnum ótrauðar að þeim takmörkum,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir annar þjálfara U17 ára landsliðs kvenna við handbolta.is í kvöld.
Tólf efstu liðin tryggja sér keppnisrétt á HM 18 ára sem fram fer eftir ár og 14 efstu liðin vinna inn keppnisrétt á næsta Evrópumót þessa árgangs.
Sjá einnig:
EMU17: Hetjuleg barátta í síðari hálfleik nægði ekki
EMU17: Sviss og Svíþjóð á þriðjudag og miðvikudag
EMU17: Dagskrá, úrslit og lokastaðan, riðlakeppni