„Ástandið er ekki gott eins og er. Við erum ekki með bolta eða búnað til æfinga og stelpurnar hafa ekki föt til skiptanna. Til þess að bæta gráu ofan á svart þá höfum ekki hugmynd um hvenær farangurinn skilar sér. Vonir stóðu til þess að hann kæmi með flugi til Búkarest frá Amsterdam í dag en nú hefur öllu flugi á milli Amsterdam og Búkarest verið aflýst vegna veðurs,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara U19 ára landsliðs kvenna sem stendur upp án nær alls farangurs í Rúmeníu þar sem keppni á Evrópumótinu hefst á morgun.

Höfum ekki hugmynd
„Við höfum ekki hugmynd um hvenær von er á 23 af 27 töskum sem við lögðum af stað með frá Keflavík í gærmorgun. Það er allt í reyk í Búkarest,“ sagði Ágúst Þór við handbolta.is fyrir stundu. Íslenski hópurinn komst í náttstað í bænum Pitesti 120 km norðvestur af Búkarest klukkan 5 í nótt að staðartíma.
Vélin affermd á síðustu stundu
Alls voru 23 af 27 töskum landsliðsins skildar eftir í Amsterdam enginn látinn vita. „Þegar við vorum komin út flugvél í Amsterdam rákum við augun í að verið var að afferma flugvélina og allar töskur merktar HSÍ voru settar á vagn sem ekið var í burtu,“ sagði Ágúst Þór.

Töskusendingin reyndist tálsýn
Vonir stóðu til að töskurnar skiluðu sér með öðru flugi frá Amsterdam sem áætlað var til Búkarest tveimur stundum eftir að íslenski hópurinn kom til borgarinnar. Sú töskusending reyndist tálsýn ein.
„Aðeins fjórar töskur skiliðu sér til Búkarest. Þrjár töskur leikmanna og taskan mín. Þeir hafa væntanlega ekki þorað að skilja hana eftir,“ sagði Ágúst Þór sem reynir að brosa í gegnum tárin eins og hans er von og vísa
Fundur í stað æfingar
„Við reynum að nálgast þetta á léttu nótunum. Stelpurnar voru að koma úr hádegismat og eru farnar í hvíld. Stefnt er á að vera með fund seinni partinn í stað æfingar því við höfum engan búnað til að æfa, hvorki bolta né föt til skiptanna.
Vonandi greiðist úr þessu í fyrramálið svo við verðum komin með búninga fyrir fyrsta leik á síðdegis á morgun,“ sagði Ágúst Þór og bætti við.
Guðríður er orðlaus
„Við erum með einn reyndasta fararstjóra landsins, Guðríði Guðjónsdóttur. Hún hefur marga fjöruna sopið á ferðalögum með landsliðunum í gegnum áratugina. Guðríður hefur aldrei lent í öðru eins. Hún er nánast orðlaus, sem ekki gerist oft,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson léttur í bragði þrátt fyrir allt í samtali við handbolta.is.
Svo vill til að fyrsti leikur íslenska landsliðsins á mótinu verður gegn rúmenska landsliðinu á morgun, fimmtudag. Flauta á til leiks klukkan 16.45 að íslenskum tíma, 18.45 í Pitesti í Rúmeníu.