„Við verðum að búa okkur vel undir leikinn við Króatíu sem mætum á morgun. Króatíska liðið leikur dæmigerða framliggjandi vörn að hætti Króata. Við verðum að vera með lausnir á henni,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara U19 ára landsliðs kvenna um næstu viðureign íslenska liðsins á Evrópumóti 19 ára landsliða kvenna sem fram fer í fyrramálið.
Liggur HM-sæti undir?
Andstæðingur íslenska liðsins verður króatíska landsliðið. Liðin eru í svipuðum sporum á mótinu. Hvorugt liðið hefur unnið leik og segja má að um úrslitaleik um HM farseðil sé að ræða vegna þess að 14 af 16 liðum mótsins komast beint á HM 20 ára landsliða næsta sumar. Tvö neðstu liðin fá tækifæri á að berjast um eitt laust sæti í forkeppni í nóvember ásamt tveimur liðum úr B-hlutum Evrópumótsins sem einnig fara fram þessa dagana í Litáen og Kósovó.
Þurfum á öllum kröftum að halda
„Króatíska liðið er mjög sprækt þrátt fyrir að það hafi ekki krækt í stig í mótinu. Við þurfum á öllum okkar kröftum að halda í leiknum. Undirbúningur okkar felst bæði í góðri hvíld og við að leita lausna á leik Króata. Við mætum vel undir leikinn búin,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson ákveðinn í bragði í samtali við handbolta.is.
EMU19: Milliriðlar, leikir, úrslit og staðan