- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

EMU19: Léku einn sinn besta leik þegar mest á reyndi

Árni Stefán Guðjónsson og Ágúst Þór Jóhannsson þjálfarar U20 ára landsliðsins kvenna. Mynd/EHF/Marius Ionescu
- Auglýsing -

„Þetta er einhver best útfærði leikur sem stelpurnar hafa leikið undir minni stjórn,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara U19 ára landsliðs kvenna í handknattleik við handbolta.is eftir að liðið tók Serba í karphúsið á Evrópumótinu í handknattleik í Rúmeníu í dag, 33:22.

Þar með innsiglaði íslenska liðið sér sæti á HM 20 ára landsliða sem fram fer að ári liðnu í Norður Makedóníu og tekur þátt í þriðja A-liða mótinu í röð sem ekki hefur átt sér stað áður á meðal yngri landsliða Íslands í kvennaflokki. Serbar sitja eftir með sárt ennið.

Ljóst fyrir leikinn

„Það var ljóst í undirbúningi leiksins að stelpurnar voru gríðarlega vel einbeittar. Meðal þeirra ríkti mikið hungur fyrir að tryggja sig inn á HM 20 ára landsliða á næsta ári,“ sagði Ágúst Þór sem átti vart orð til þess að lýsa varnarleiknum sem var hreint magnaður.

Leikmenn íslenska landsliðsins fagna einum af sigrinum sínum á EM. Mynd/EHF/Marius Ionescu

Voru á fullri ferð

„Að halda Serbum í 22 mörkum er mikið afrek. Það var alveg sama hvar var litið á vörnina. Allar voru á fullu og þegar skipt var þá kom maður í manns stað. Miðjumennirnir Elísa, Alfa og Inga voru eins og klettar, bakverðirnir unnu frábært starf og hornamennirnir voru oft að stela boltanum. Markvarslan var fín fyrir aftan. Til viðbótar náðum við nýta varnarleikinn til þess að keyra hratt fram á serbneska liðið sem fékk ekki við neitt ráðið,“ sagði Ágúst og bætti við að sóknarleikurinn hafi verið framúrskarandi eins og í öðrum leikjum íslenska liðsins á mótinu. Liðið skoraði rúmlega 31 mark að jafnaði í leik í mótinu.

Allar leggja í púkkið

„Okkar styrkleiki hefur ekki síst falist í því hversu margir leikmenn hafa lagt í púkkið, jafnt í vörn sem sókn. Í dag vorum við að skjóta mjög vel gegn serbneska markverðinum sem hafði staðið sig vel á mótinu fram til þessa.“

Íslenska liðið hefur verið dyggilega stutt í öllum leikjum mótsins. Mynd/EHF/Marius Ionescu

Gríðarlega öflugur hópur

„Niðurstaðan af mótinu er sú að liðið tryggði sér þátttökurétt á þriðja stórmót A-liða í röð sem er stórbrotið afrek sem ég man ekki til að hafi gerst í sögunni kvennamegin hjá íslensku landsliði. Þessi hópur er gríðarlega öflugur. Framan af mótinu höfðu einhverjir heima ekki trú á því sem verið var að gera. Stelpurnar uxu eftir því sem á mótið leið. Að okkur tækist að tryggja okkur sæti á HM er stórkostlegt,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara U19 ára landsliðs kvenna í samtali við handbolta.is í dag.

Framhald verður á viðtali við Ágúst Þór á handbolti.is í fyrramálið.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -