Lilja Ágústsdóttir var fimmta markahæst á Evrópumóti 19 ára landsliða sem lauk síðdegis í Rúmeníu með sigri Ungverja. Lilja skoraði 48 mörk í sjö leikjum íslenska liðsins í mótinu, eða rétt tæp sjö mörk að jafnaði í leik.
Af íslensku leikmönnum var Elín Klara Þorkelsdóttir næst á eftir Lilju með 42 mörk, eða rétt sex mörk að meðaltali í leik. Elín Klara situr í 12. sæti.
Dönsk markadrottning
Julie Mathiesen Scaglione, Danmörku, varð markadrottning mótsins með 68 mörk, eða nærri 10 mörk að jafnaði í leik. Luciana Rebelo frá Portúgal varð önnur með 62 mörk, nærri níu mörk að meðaltali í leik. Alisia Leona Boitciuc, Rúmeníu, skoraði 53 mörk og hafnaði í þriðja sæti.
Ísland hafnaði í 13. sæti á EM og krækti í síðasta farseðilinn á HM 20 ára landsliða sem haldið verður að ári liðnu í Norður Makedóníu.