Ísland leikur á morgun um þrettánda og síðasta farseðilinn sem í boði er á heimsmeistaramóti 20 ára landsliðs kvenna á næsta ári, eftir að hafa unnið landslið Norður Makedóníu örugglega í morgun, 35:29, í íþróttahöllinni í Mioveni í Rúmeníu.
Uppfært: Íslenska liðið mætir Serbíu í leiknum um 13. sæti klukkan 12.15 á morgun, laugardag. Handbolti.is verður að vanda með textalýsíngu frá leiknum sem fram fer í Mioveni í Rúmeníu.
Þrettán efstu lið mótsins tryggja sér sæti á HM 20 ára landsliða sem fram fer í Norður Makedóníu eftir ár. Tvö neðstu, að Norður Makedóníu frátalinni, komast í umspilskeppni í nóvember um eitt laust sæti ásamt sigurliðum B-móta EM sem fram fara um þessar mundir í Kósovó og Litáen.
Íslensku stúlkurnar voru mun öflugri en þær norður makedónísku í leiknum í morgun. Reyndar komu upp smá örðugleikar í skamman tíma í fyrri hálfleik að loknum góðum upphafsmínútum. Norður Makedónía komst yfir í tvígang. Eftir gott leikhlé og breyttan varnarleik, 5/1 í stað 6/0, sneru íslensku stúlkurnar við taflinu og fóru með fimm marka forskot inn í hálfleikinn, 20:15.
Snemma í síðari hálfleik freistaði lið Norður Makedóníu að ná áhlaupi. Það var brotið á bak aftur í stöðunni, 26:21. Eftir það lék íslenska liðið við hvern sinn fingur og náði mest níu marka forskoti. Undir lokin losnaði leikurinn upp en íslenskur sigur var aldrei í hættu.
Mörk Íslands: Lilja Ágústsdóttir 11/5, Elín Klara Þorkelsdóttir 7, Inga Dís Jóhannsdóttir 6, Embla Steindórsdóttir 4, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 3, Katrín Anna Ásmundsdóttir 2, Alfa Brá Hagalín Oddsdóttir 1, Elísa Elíasdóttir 1.
Varin skot: Ethel Gyða Bjarnasen 9, 27,2% – Elísa Helga Sigurðardóttir 1, 16,6%.
Að vanda fylgdist handbolti.is með leik U19 ára landsliðsins í textalýsingu.