Stúlkurnar í 19 ára landsliði Íslands í handknatteik mæta Serbum í leik um 13. sæti á Evrópumótinu í Mioveni í Rúmeníu á morgun. Það varð ljóst eftir að Serbar unnu Króata með fimm marka mun, 31:26, á mótinu í dag. Leikur Íslands og Serbíu hefst klukkan 12.15 á morgun.
Um afar mikilvægan leik er að ræða fyrir bæði lið. Sigurlið leiksins hreppir farseðil á heimsmeistaramót 20 ára landsliða sem fram fer í Norður Makedóníu að ári liðnu.
„Við munum skilja allt eftir inni á leikvellinum,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara U19 ára liðsins ákveðinn í bragði við handbolta.is í dag.
Tapliðið kemst í forkeppni um keppnisrétt ásamt Króatíu og tveimur öðrum liðum úr B-hluta Evrópmótsins. Forkeppnin fer fram í nóvember. Í henni verður eitt HM sæti á boðstólum. Í slíkri keppni er ekki á vísan róið.
Handbolti.is fylgist með leik Íslands og Serbíu á morgun í textalýsingu eins og öðrum leikjum íslenska liðsins í Evrópukeppninni.
Sjá einnig:
EMU19: Öruggur sigur – leika um HM-farseðil á morgun
EMU19: Með betri leikjum sem liðið hefur leikið