Aðsend grein
Arnar Gunnarsson er þrautreyndur handknattleiksþjálfari og áhugmaður um velgengni og vöxt handknattleiks. Hann er þjálfari Neistans í Færeyjum.
[email protected]
Áður en lengra er haldið skal það skýrt tekið fram. Ég er sömu skoðunar varðandi körfubolta og fótbolta á Íslandi.
Þeir sem mig þekkja og nenna að hlusta á vita vel hver skoðun mín er varðandi deildarfyrirkomulag í handbolta á Íslandi.
Svo því sé haldið til haga er ég þeirrar skoðunar að leika eigi í átta liða efstu deild í handbolta á Íslandi sem og næst efstu.
Lengi vel var spilað í 10 liða deild og prófað var til dæmis nýtt fyrirkomulag í úrslitakeppni árið 1991. Þar sem félögin tóku með sér stig eftir því hvar þau enduðu í deildinni.
Árið eftir, 1991/2, var svo leikið í 12 liða deild í fyrsta sinn, að því mig minnir. Og í fyrsta sinn leikið í átta liða úrslitakeppni. Þannig var leikið til ársins 2001. Á þessum níu árum fækkaði liðum í neðri deildum sem endaði með að leikið var í einni deild. Leiktíðina 2001/2 og 2002/3 var leikið í einni deild með átta liða úrslitakeppni. Næstu tvær leiktíðir á eftir var leikið í svokölluðum Norður og Suður riðlum sem mér fannst heppnast vel. Það er efni í aðrar greinar að útskýra það fyrirkomulag.
Það er því vel hægt að færa rök fyrir því að 12 liða úrvalsdeild fækki liðum í deildarkeppni.
Leiktíðina 2005/6 var spilað í einni 14 liða deild. Tvöföld umferð og átta efstu fóru í efstu deild árið eftir og sex neðstu í næst efstu. Akureyrarliðin sameinuðust vorið 2006 þannig að aðeins fimm lið voru því eftir í neðri deild. Þeim fjölgaði þó er leið á haustið. Inn komu hinsvegar Grótta og Höttur og Haukar Ú. (Fylkir lagði upp laupana árið eftir (féllu 2007)).
Með þessu fyrirkomulagi var svo spilað til ársins 2014, það er átta liða úrvalsdeild. Þá leiktíð, 2013/14, voru komin 11 lið í næst efstu deild (og engin Ú lið).
Það er því vel hægt að færa rök fyrir því að átta liða úrvalsdeild fjölgi liðum í deildarkeppni. Hins vegar eftir að menn tóku að fjölga aftur í efstu deild tók liðum að fækka. Fjölgað var árið 2014 í tíu liða úrvalsdeild og tveimur árum síðar í 12 liða úrvalsdeild.
Það er von mín og trú að verði þetta að ofan að veruleika séum við komnir með vettvang fyrir sem flesta og verkefni við hæfi. Leikmenn og félög væri að keppast í hörkudeildum og við sitt getustig. Eins trúi ég því að þetta fyrirkomulag myndi gefa liðum meiri tíma og svigrúm til að byggja sig upp og fara upp um deild þegar þau eru virkilega tilbúin. En ekki líkt og það sem við sjáum alltof oft, félög sem ekkert hafa upp að gera slysast þangað. Jafnvel þrátt fyrir að lenda í 6. sæti Grill deildar. Aukinheldur tel ég þetta hafa góð áhrif á umgjörð, niðurröðun dómara og umfjöllun fjölmiðla.
Er átta liða efstu deild á Íslandi ekki eina vitið?
Hér að ofan er fyrri grein Arnars um breytingar á keppnisfyrirkomulagi Íslandsmótsins. Síðari greinin birtist í fyrramálið.