Handknattleiksmaðurinn Elvar Ásgeirsson gekk til liðs við franska liðið Nancy frá samnefndri borg á fyrsta ársfjóðungi þessa árs eftir hálfs annars árs veru hjá Stuttgart í Þýsklandi. Elvar var sóttur af forráðamönnum Nancy til þess að efla liðið á lokaspretti 2. deildarinnar þar sem markmiðið var að fara upp í deild þeirra bestu í lok keppnistímabilsins. Nancy náði markmiði sínu og nú leikur liðið á meðal þeirra bestu í Frakklandi.
Erfiðara tungumál
„Það er nokkur munurinn á að vera Frakklandi en í Þýskalandi. Tungumálið er til dæmis erfiðara. Ég átti auðveldara með að tileinka mér þýskuna. Franskan er þó að koma hægt og bítandi,“ sagði Elvar þegar handbolti.is hitti hann að máli þegar hann var staddur hér á landi fyrir helgina vegna æfingabúða íslenska landsliðsins.
„Svo er einnig munur á handboltanum þótt hugsunin sé oft sú sama. Helsti munurinn er kannski sá að það er meiri skyttubolti í Þýskalandi en í Frakklandi. Þjóðverjar eru þó byrjaðir að tileinka sér meira leikinn, einn á móti einum, sem er meira um Frakklandi. Ég kann vel við leikinn í Frakklandi,“ sagði Elvar spurður um muninn á handboltanum í Þýskalandi og í Frakklandi.
Tvískipt deild
Talsvert stökk er einnig að fara úr 2. deild í Frakklandi og upp í efstu deild. Hann segir 2. deild hafa verið tvískipta á síðasta tímabili og svo sé væntanlega enn. „Liðin í efri hlutanum eru mörg hver mjög flott með fína umgjörð og hafa verið að fara á milli deildanna á undanförnum árum. Neðri sex til átta liðin voru mun síðri. Það var talsverður munur á efri og neðri hlutans og er það örugglega ennþá,“ sagði Elvar og viðurkennir að stökkið hafi verið stórt að mæta til leiks í efstu deild í haust.
Erum með gott lið
„Við vorum með góðan hóp en urðum að bæta við okkur. Leikmenn með mikla reynslu komu til liðs við okkur en aðrir lakari og reynsluminni fóru annað. Okkur líður nokkuð vel með liðið eins og það er skipað í dag,“ sagði Elvar ennfremur.
Elvar var valinn í B-landsliðið snemma árs 2017 og aftur haustið 2018. Í apríl á þessu ári var Elvar kallaður inn í A-landsliðið fyrir þrjá leiki í undankeppni EM. Skömmu fyrir fyrsta leik veiktist hann af kórónuveirunni og varð að draga sig út úr hópnum. Elvar var í æfingahópi landsliðsins sem var saman við æfingar hér á landi í síðustu viku.
Stutt á milli
Nancy er um þessar mundir með fjögur stig eins og þrjú lið til viðbótar sem sitja í 13. til 16. sæti af 16 liðum deildarinnar Átta umferðir eru að baki. Staðan er jöfn því sem dæmi má nefna að Créteil í 10. sæti er með sex stig. Það þarf því lítið til að Nancy mjaki sér ofar enda er markmiðið að halda sætinu í deildinni þegar upp verður staðið í vor. Saran, sem einnig kom upp í efstu deild í vor, er á sama róli og Elvar og félagar.
Blóðug barátta framundan
„Baráttan um að halda sætinu verður blóðug. Við gerum okkur grein fyrir því. Um þessar mundir erum við í sex liða pakka í neðri hlutanum. Framundan eru leikir á móti þremur af þeim. Nú er komið að því hjá okkur að safna stigum og ég tel okkur vera tilbúna í þann slag. Okkur hefur gengið upp og ofan fram til þessa enda hafa nokkrir leikjanna verið gegn sterkum liðum í efri hlutanum. Síðasti leikur fyrir landsleikjahléið gegn Montpellier var góður þótt við höfum tapað. Frammistaðan var hinsvegar góð og sýndi hvers við erum megnugir sem skiptir miklu máli fyrir framhaldið í mikilvægum leikjum.“
Er í lykilhlutverki
Elvar segist vera sáttur við hlutverk sitt hjá Nancy. „Ég er í lykilhlutverki í sóknarleiknum sem er nokkuð sem ég sóttist eftir þegar ég ákvað söðla um og yfirgefa Stuttgart og semja við Nancy. Ég nýt mín í botn eins og sakir standa,“ sagði hinn 27 ára gamli Mosfellingur.
„Þjálfarinn er góður og hann sýnir mér mikið traust sem ég er mjög ánægður með. Hann hefur hjálpað mér mikið. Sjálfstraust mitt á vellinum hefur aukist undir hans stjórn þar sem ég hef fengið nægan tíma til þess að leika, sýna hvað í mér býr en um leið gert mistök sem hafa ekki komið niður á leiktíma mínum né trausti. Ég er í góðum höndum hjá Nancy,“ sagði Elvar Ásgeirsson, handknattleikamaður.