- Auglýsing -
- Auglýsing -

Er stoltur af því sem stelpurnar gerðu á vellinum

Arnar Pétursson landsliðsþjálfari hvetur leikmenn til dáða. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Ég er stoltur af því sem stelpurnar gerðu á vellinum í dag. Þær lögðu sig alla fram gegn hörkusterku liði. Við höfum verið og erum aðeins á eftir Ungverjum en erum örugglega á réttri leið og nálgumst liðin fyrir ofan okkur,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik í samtali við handbolta.is í kvöld eftir að íslenska landsliðið tapaði fyrir Ungverjum, 34:28, í síðari umspilsleiknum í Érd í Ungverjalandi í kvöld. Þar með er vonin um þátttökurétt á HM síðar á þessu ári úr sögunni.

Sýndu mikinn karakter

„Við misstum Ungverja átta mörkum framúr okkur í fyrri hálfleik en stelpurnar sýndu mikinn karakter þá að koma til baka og gera þetta að þeim leik sem hann varð þegar komið var fram í síðari hálfleik. Lengst af var ekki nema eins marks munur og möguleiki á að jafna metin,“ sagði Arnar ennfremur sem var vonsvikinn með missa leikinn niður í sex marka tap.

Óþarflega stórt tap

„Við erum sem hópur svekkt með að missa leikinn niður í sex marka tap. Það var óþarflega stórt tap eftir að hafa verið í jafnari leik nær allan síðari hálfleikinn. Þótt aldrei sé gott að tapa þá var frammistaðan þannig að við hefðum verið sáttari ef munurinn hefði verið tvö eða þrjú mörk þegar flautað var af. Ég tek það á mig hvernig lokakaflinn fór. Þá breyttum við yfir í 5/1 vörn og fórum að keyra of mikið upp. Það er nokkuð sem ég tek á mig,“ sagði Arnar.

Íslenska landsliðið sem tók þátt í leiknum í Érd. Mynd/Aniko Kovacs

Næst undankeppni EM

Engan bilbug er að finna á Arnari eða leikmönnum hans þótt annað árið í röð hafi landsliðið tapað af þátttökurétti á stórmóti með nokkuð litlum mun. Í haust hefst undankeppni EM 2024 sem lýkur eftir ár. Stefnan hefur verið sett á lokakeppnina sem haldin verður í Austurríki, Ungverjalandi og Sviss.

Engan bilbug á okkur að finna

„Ég hlakka til að takast á við næsta verkefni sem er undankeppni EM. Þetta er skemmtilegur hópur sem gaman er að vinna með. Það er alltaf skemmtilegt þegar við komum saman. Það er engan bilbug að finna á einum eða neinum. Þvert á móti, hrós á leikmenn. Við höldum ótrauð áfram á þeirri leið sem við erum á. Þar verður engin breyting á,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari í samtali við handbolta.is í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -